135. löggjafarþing — 69. fundur,  26. feb. 2008.

úthlutun byggðakvóta.

[14:20]
Hlusta

Magnús Stefánsson (F):

Hæstv. forseti. Eins og nafnið byggðakvóti ber með sér er honum ætlað að styrkja atvinnulíf í sjávarbyggðunum, sérstaklega þar sem samdráttur hefur verið í veiðum og vinnslu umfram það sem almennt er.

Eins og fram hefur komið í þessari umræðu kom Byggðastofnun framan af að því að úthluta þessum heimildum en hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur farið yfir það hvernig málum er háttað nú. Við vitum að það hefur auðvitað ekki gengið þrautalaust gegnum tíðina að úthluta þessum veiðiheimildum og oft hefur þeirri úthlutun lokið seint og um síðir.

Hæstv. ráðherra fór yfir það áðan hvernig staðan er nú á þessu fiskveiðiári. Ég veit að fiskimenn í ýmsum byggðarlögum hafa beðið lengi eftir þessum úthlutunum, sérstaklega þegar veiðiheimildir flotans eru að verða uppveiddar og fullnýttar. Menn sjá fram á að þurfa að binda fiskiskipin hvert af öðru á næstu dögum eða vikum vegna niðurskurðar á þorskveiðum.

Ég hef orðið var við að menn botna ekkert í því hvers vegna ekki er búið að ganga frá þessu. Hæstv. ráðherra hefur farið yfir það hér og ég skora á hann að beita sér fyrir því að þessu máli ljúki hið allra fyrsta.

Hvað framhaldið varðar þá tel ég að viðhalda eigi byggðakvótanum. Þessar veiðiheimildir hafa skipt miklu máli víða í gegnum tíðina eins og við þekkjum. Það þarf auðvitað að þróa þessa aðferðafræði, þ.e. hvernig kvótanum er úthlutað. Ég tel að ekki eigi að loka á að í framtíðinni komi Byggðastofnun að því máli. Við skulum þó að sjálfsögðu gefa hæstv. ráðherra tækifæri til þess að útfæra þetta og koma til framkvæmda þeim lögum sem eru í gildi og ég óska honum alls góðs í þeim efnum.

Það er hins vegar ljóst, virðulegi forseti, að margir hafa horn í síðu byggðakvótans. Við þekkjum afstöðu LÍÚ en nú hefur Samfylkingin bæst í þann hóp samkvæmt nýlegum yfirlýsingum formanns þess flokks. Ég hvet hæstv. ráðherra til að standa fast í lappirnar til þess að verja byggðakvótann gegn ásælni Samfylkingarinnar.