135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

fangaflug Bandaríkjamanna.

[10:35]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Varðandi dönsku myndina sem hér var sýnd þá var aðeins sýndur fyrri hluti þeirra þátta sem þessir dönsku kvikmyndagerðarmenn hafa gert. Þeir gerðu nefnilega tvo þætti um fangaflugið og í síðari þættinum er m.a. til þess tekið að Íslendingar hafi aðhafst ýmislegt í þessum málum sem Danir hafi ekki gert og það er raunar notað í síðari þættinum sem viðmiðun sem dönsk stjórnvöld ættu að notfæra sér að íslensk stjórnvöld hafi látið gera skrá yfir allar lendingar hér á landi, farið yfir málið og ákveðið í framhaldinu að viðhafa skoðun þegar flugvélar lenda hér til að sannreyna að ekkert slíkt eigi sér stað þegar til framtíðar er litið. Aðgerðir íslenskra stjórnvalda, utanríkisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins, eru reyndar nefndar sem fyrirmynd fyrir dönsk stjórnvöld og til marks um það að hér hafi ýmislegt verið gert sem Danir hafi ekki gert. Mér finnst miður að síðari hluti þessara þátta skuli ekki hafa verið sýndur, en það getur vel verið að það eigi eftir að gera það, því að þá fæst önnur mynd á málið.

Varðandi svar mitt til fyrirspyrjanda þá svaraði ég eins og kom fram að það væri vart mögulegt að sannreyna það nema þá með miklum aðgerðum og það stendur, held ég, virðulegur forseti, að mjög erfitt er að sannreyna það. Aðalatriðið er að grípa til aðgerða þannig að tryggt sé að slíkt gerist ekki í framtíðinni. Ég sé ekki að það sé ástæða til að setja niður sérstaka rannsóknarnefnd, við höfum engin slík tilefni fengið upp í hendurnar að ég telji að ástæða sé til þess. Ef það gerist þá er sjálfsagt að endurskoða málið.