135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[13:58]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má eflaust margt betur fara í Afganistan og ég skal vera fyrst til að taka undir það að mönnum hafi verið mislagðar hendur í þeim hernaði sem þar hefur farið fram. Sú umræða fer líka fram á vettvangi NATO, að menn þurfi sífellt að vera með þessar aðgerðir til skoðunar og reyna að vera gagnrýnir á eigin framferði í landinu.

Það er líka rétt sem kemur fram hjá þingmanninum að auðvitað er þetta umdeilt í fjölmiðlum á Norðurlöndunum. En við getum ekki látið stjórnast af því. Það er skiljanlegt að þetta sé umdeilt. Þetta er áhættusamt. Fólk er að tapa lífinu í Afganistan. Norðmenn, að ég tali nú ekki um Kanadamenn, Hollendingar og ýmsar Evrópuþjóðir eru að tapa fólki sínu Afganistan.

En samt sem áður er það mat manna að það sé gríðarlega mikilvægt að gefast ekki upp við þetta verkefni, minnugir þess hvernig ástandið var í landinu og hvernig það var búið að vera, ekki bara nokkur ár, heldur áratugi. Þess vegna er gríðarlega mikilvægt að taka ábyrgð á verkefninu, reyna að gera þetta betur en gert er og reyna síðan auðvitað að finna pólitískar lausnir á þessu verkefni því hernaðarlegar lausnir munu aldrei leiða til endanlegrar niðurstöðu eða farsællar niðurstöðu.

Við sendum engan nauðugan til Afganistan. Þeir sem þangað fara fara af fúsum og frjálsum vilja vitandi um áhættuna. Við eigum líka að vita um hana, áhættuna sem er þessu samfara því hún er sannarlega til staðar. En ég er eindregið þeirrar skoðunar að við eigum ekki að draga okkur út úr verkefnum í Afganistan. Mér finnst ábyrgðarlaust að við gerum það.