135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

heimkvaðning friðargæsluliða frá Afganistan.

273. mál
[14:52]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég vona að sem flestir heyri þessa umræðu. Þá ekki síst kjósendur Samfylkingarinnar sem sumir hverjir töldu sig vera að kjósa stjórnmálaflokk sem mundi á alþjóðavettvangi halda uppi merki yfirvegunar og hófsemdar en talaði ekki fyrir þeirri hernaðarhyggju sem við höfum orðið vitni að við þessa umræður, ekki síst af hálfu hv. þm. Árna Páls Árnasonar. Ekki vottur af efasemd, ekki vottur af gagnrýni enda þótt sýnt sé og sannað að Genfarsáttmálinn frá 1949 um vernd borgara í stríði hafi margítrekað verið brotinn, enda þótt sýnt sé og sannað að ungir drengir hafi verið fluttir frá Afganistan í herbúðir í Guantanamo þar sem þeir hafa verið beittir viðurstyggilegum pyndingum utan laga og dómskerfa sem mannréttindasamtök um allan heim hafa gagnrýnt. En frá íslenskum sósíaldemókrötum, frá Samfylkingunni, frá hæstv. utanríkisráðherra, formanni Samfylkingarinnar eða varaformanni utanríkismálanefndar Alþingis, talsmanni Samfylkingarinnar í utanríkismálum, hv. þm. Árna Páli Árnasyni, er ekki vottur af gagnrýni, enginn.

Var einhvern tíma verið að tala um hina viljugu? Eru menn búnir að gleyma því? Ég held að það væri fróðlegt og æskilegt að menn rifjuðu upp umræðuna sem fram fór m.a. hér á Alþingi um hina viljugu fylgjendur Bush-stjórnarinnar þegar Bandaríkjamenn réðust á sínum tíma inn í Írak. Málflutningur Samfylkingarinnar hér á þingi, og þar með ríkisstjórnar Íslands, rímar fullkomlega við áherslur haukanna í Washington. Norðurlandaþjóðirnar eru að tapa sínu fólki, sagði hæstv. utanríkisráðherra, en það er gríðarlega mikilvægt — ég held að ég fari rétt með þau orð hæstv. utanríkisráðherra og formanns Samfylkingarinnar — að við gefumst ekki upp. Við eigum að vera minnug þess hvernig ástandið var áður en til innrásarinnar kom og er þar vísað í hlutskipti almennra borgara, sérstaklega kvenna.

Þannig var því einnig farið í Írak. Þar var ástandið slæmt, þar ríkti einræðisherra, þar var ógnarstjórn en engu að síður gagnrýndum við árásina á Írak og það gerði Samfylkingin einnig á þeim tíma, ef ég man rétt. Nú kveður við allt annan tón. (Gripið fram í: Nei.)

Ég minnist þess að heyra nákvæmlega þessa röksemdafærslu fyrir 25 árum. Þá var nefnilega réttilega bent á það á öðrum stað í heiminum, ekki í Washington heldur í Moskvu, að verið væri að bæta hlut almennra borgara í Afganistan, að rétta hlut kvenna. Og verið var að gera það í vissum skilningi en í skjóli hersetu árásarhers frá Sovétríkjunum sem studdi byltingarstjórnina í Kabúl. Ég tala af ofurlítilli reynslu um þetta efni vegna þess að ég hafði atvinnu af því í áratug að fylgjast með þessum málefnum. Ég fór m.a. til landamærahéraðanna í Norður-Pakistan, landamærahéraðanna að Afganistan til að heimsækja frelsishetjur þess tíma, þær hétu talibanar. Þá borgaði sig að tala á annan veg á Vesturlöndum.

Það sem ég er að segja með öðrum orðum er að í Afganistan hefur lengi ríkt skelfilegt ástand og gerir enn. Ef við ætlum hins vegar að láta að okkur kveða til góðs þurfum við að hyggja að því á hvaða forsendum við gerum það.

Hvers vegna erum við í Afganistan? Hvers vegna er NATO í Afganistan? Hvenær var ráðist inn í Afganistan? Það var haustið 2001 í kjölfar hryðjuverkanna í New York. Þá minnist ég þess að þáv. hæstv. utanríkisráðherra Íslands hafði orð á því að honum hefðu verið sýnd sönnunargögn sem sýndu ótvírætt fram á það að þeir sem bæru ábyrgð á hryðjuverkunum í New York sætu í Afganistan. Við höfum aldrei fengið að sjá þau sönnunargögn. Á þjóðþingum víða um heiminn eru menn að rifja þessa atburði upp, á Ítalíu, í Japan og víðar. En hér, þegar við úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði viljum hefja þessa umræðu um Afganistan og hlutdeild okkar þar í hernaðarkerfi NATO, mætum við málflutningi á borð við þann sem þjóðin hefur orðið vitni að núna síðasta klukkutímann. Ég endurtek að ég vona að sem flestir hafi heyrt hæstv. utanríkisráðherra og formann Samfylkingarinnar og helsta talsmann Samfylkingarinnar í utanríkismálum básúna hernaðarhyggjuna sem aldrei fyrr í þessum þingsal.

Það er víða ranglætið í heiminum. Það er hlegið alltaf svo mikið hérna í dyrunum, þessi her aðstoðarmanna utanríkisráðherra. Það er athyglisvert að jafnan þegar hæstv. utanríkisráðherra mætir til umræðna í þinginu er hátt í tugur aðstoðarmanna hér með miklar möppur til að mata hæstv. ráðherra og til að hlæja, taka þátt í umræðunni með óbeinum hætti með hlátursgusum hér í anddyri. (Gripið fram í: Þú mátt ekki vera svona viðkvæmur.) Ég er ekkert viðkvæmur, ég er að vekja athygli áhorfenda og þeirra sem eru vitni að þessari umræðu á því hvað hér er almennt að gerast. Þeir sjá ekki þessa viðhlæjendur ráðherrans sem hún hefur verið að raða í kringum sig í ráðuneytinu á kostnað skattborgarans, sennilega fleiri aðstoðarmönnum en dæmi eru um áður. (Gripið fram í: Þetta er ómaklegt.) Er þetta ómaklegt? Ég er að vekja athygli á staðreyndum (Gripið fram í.) og tilefnið var það þegar (Gripið fram í.) þessir hláturskórar hófust hér að nýju. (ÁPÁ: Það er ómaklega vegið að opinberum starfsmönnum.) Hv. þm. Árni Páll Árnason er hér með málefnalega innkomu í þessa umræðu að sínum hætti.

Nei, hæstv. forseti. Við eigum að láta til okkar taka á alþjóðavettvangi í þróunarsamvinnu. Við tókum þátt í umræðu hér fyrr í dag um Þróunarsamvinnustofnun og lýstum fullum stuðningi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við aukið framlag Íslendinga til þróunarsamvinnu og þróunarmála. Við höfum verið með tillögur þess efnis á undanförnum árum þannig að við verðum ekki vænd um viljaleysi til að láta að okkur kveða á erlendum vettvangi en við viljum ekki gera það undir handarjaðri hernaðarbandalagsins NATO. Við teljum það vera óheppilegt hvort sem er í Afganistan eða annars staðar í heiminum.