135. löggjafarþing — 72. fundur,  28. feb. 2008.

breyting á lögum á auðlinda- og orkusviði.

432. mál
[18:15]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Þó að við hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon séum í ýmsum atriðum sammála að því er varðar félagslegt hlutverk ríkisins er ákveðinn munur á grundvallarnálgun okkar til margra hluta. Ég gengst sem jafnaðarmaður við hinu samfélagslega hlutverki ríkisins en hef einnig mikla trú á því sem við getum kallað frumkvæði og framtak einstaklingsins og fyrirtækja á markaði. Ég held að menn sjái í þessu frumvarpi eins konar samþættingu þessara tveggja sjónarmiða.

Ég er í fyrsta lagi með frumvarpinu að tryggja að hvað sem á dynur séu a.m.k. lög í landinu sem tryggja að eignarhald á auðlindinni breytist ekki frá því sem nú er. Í annan stað er ég um leið að reyna að greiða því leið að fyrirtæki og einstaklingar geti þó hugsanlega í krafti nýtingarleyfisins látið á það reyna hvort þeim takist að skapa auð og verðmæti sem öðrum tekst ekki.

Hv. þingmaður kemur með ákveðna nálgun varðandi sérleyfisfyrirtækin sem lagt er til að verði saman með það sem nú er undir einkaleyfi og sérleyfi. Hann bendir á að með því að leggja fyrir í lögum að eignarhaldið skuli vera að 2/3 hlutum í eigu opinberra aðila sé í reynd verið að greiða leið fyrir því að einhver þriðjungur komist út á markað. Það er rétt skilið hjá hv. þingmanni. Hins vegar er það þannig að þetta tryggir að félagslegt forræði er til staðar á þessari nauðþurftaþjónustu, það er algjörlega klárt. Það er líka rétt hjá hv. þingmanni að alls konar opinberar kvaðir liggja á þessari tegund þjónustu og þetta er nú ekki fýsilegur fjárfestingarkostur.

Þarna er verið að fara sömu leið og fylgja fordæmi því sem er í vatnsveitulögunum (Forseti hringir.) nema það er gengið skemmra.