135. löggjafarþing — 73. fundur,  3. mars 2008.

málefni fatlaðra á Reykjanesi.

[15:19]
Hlusta

félags- og tryggingamálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að það hafi verið gert meira úr þessu máli í fjölmiðlum en efni standa til. Ég verð að segja það hér að hjá svæðisskrifstofunni hefur enn ekki verið hafnað neinum samningi við stuðningsfjölskyldur. Í Reykjavík og á Reykjanesi eru sennilega um 300 samningar við stuðningsfjölskyldur og ógerðir á báðum þessum stöðum, í Reykjavík og á Reykjanesi sennilega um 30 samningar.

Ég tek undir það með fyrirspyrjanda að þetta er mjög mikilvægt úrræði sem verður að vera til staðar. Hitt er annað mál að það hafa verið erfiðleikar í rekstri svæðisskrifstofu Reykjaness og þar er töluverður halli, sennilega um 30 millj. kr. á þessu ári, sem rekja má til ársbyrjunar 2007 sem menn eru nú að vinna með og reyna að leysa.

Þessa stundina, í þessum töluðu orðum stendur yfir fundur með svæðisskrifstofu Reykjaness og ég á von á því að menn reyni að finna lausn á þessu máli. Það er auðvitað ekki viðunandi ástand að fatlaðir og fjölskyldur þeirra fái ekki stuðningsfjölskyldur eins og á þarf að halda. Þetta eru ekki mjög dýr úrræði og þau spara mjög mikið, bæði stuðningsfjölskyldur og skammtímavistanir sem eru til boða og spara það oft að grípa þurfi til sérstakra búsetuúrræða. Þetta er því mikilvægur valkostur sem þarf að vera í lögum um málefni fatlaðra.

Ég vil einnig segja að á þessu ári var fé til skammtímavistunar verulega aukið og reyndar í málaflokkinn í heild vegna þess að raunaukning í þennan málaflokk milli áranna 2007 og 2008 er um 800 millj. kr. Til þess að leysa þann sérstaka vanda sem er hjá svæðisskrifstofu Reykjaness þarf 10 millj. kr. En vandinn (Forseti hringir.) í rekstri skrifstofunnar er stærri en svo og það eru menn að kljást við þessa stundina.