135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

störf þingsins.

[13:44]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Herra forseti. Sem meðflutningsmaður að þeirri tillögu sem hér er á dagskrá vil ég lýsa því yfir að ég kalla eftir afgreiðslu á þessu máli út úr allsherjarnefnd. Ég tek undir það sem fyrirspyrjandi hefur sagt um inntak þessarar tillögu að það er auðvitað smánarblettur á Alþingi að hafa samþykkt þessi lög og við sem sitjum nú á Alþingi eigum að sjá sóma okkar í því að taka þau til endurskoðunar og breytingar.

Hér var minnst á þingmannafrumvörp sem liggja í allsherjarnefnd og reyndar fleiri nefndum og formaður nefndarinnar upplýsti að það væru 33 mál sem lægju þar fyrir til afgreiðslu og þetta er náttúrlega eitt af þeim. Það er einn skafankinn í þingstörfum að þingmannamál sitja á hakanum og ég held að það sé rétt sem hv. formaður nefndarinnar sagði að það er vilji til þess, vaxandi vilji og stuðningur til þess að reyna að láta þingmannamálin hafa aukinn forgang.

Ég vísa svo að lokum til þess að í raun og veru er kannski óþarfi að bíða eftir afgreiðslu þessa máls úr nefnd með vísan til þess að í stjórnarsáttmálanum, eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gat um, er talað um að þetta mál, lögin um eftirlaunin hjá viðkomandi aðilum verði tekin til endurskoðunar. Ég held að það sé bara rétt fyrir okkur óbreytta þingmenn, liðsmenn stjórnarliðsins sem stjórnarandstöðunnar, að þrýsta á og kalla eftir þessari endurskoðun.