135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

staða efnahags-, atvinnu- og kjaramála.

[15:36]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Vissulega eru blikur á lofti í efnahags-, atvinnu- og kjaramálum. Þrátt fyrir að kjarasamningar hafi verið gerðir nú nýverið er óvíst hvort þeir halda, hvort þeir verða samþykktir og hvort fólkið sem fékk 20 þús. kr. í kauphækkun mun fá eitthvað út úr þeim. Það er óljóst enn, það fer eftir því hvernig verðbólgan verður á næstu mánuðum.

Fiskveiðistjórnarkerfið hefur haft mjög mikil áhrif á atvinnumál í sjávarbyggðum landsins. Það hefur leitt það af sér að við erum í sögulegu lágmarki að veiða þorsk, aðeins 130 þúsund tonn — ég hefði talið óhætt að veiða a.m.k. 200 þúsund tonn eða jafnvel meira og við höfum lagt það til í Frjálslynda flokknum. Þessa dagana eru firðir og flóar að fyllast af fiski, stórum og góðum þorski sem þegjandi syndir í ála. Það er auðvitað ánægjulegt en það er sorglegt að mega ekki taka þátt í því að veiða hann.

Illa horfir í loðnunni, við getum kannski veitt einhver 150–200 þúsund tonn af loðnu, sem er sorglega lágt. Ástæðan fyrir því að við erum að veiða svo lítið af loðnu er hvernig við höfum staðið að loðnuveiðum í áranna rás. Við höfum verið að veiða loðnu með flottrolli sem hefur drepið miklu meira en við höfum náð að veiða og þannig skaðað loðnustofninn. Við þurfum að hugsa um þessa þætti, hvernig fiskveiðistjórnarkerfið fer með auðlindina, bæði varðandi brottkast á þorski og aðferðafræðina við að veiða loðnu sem skaðar okkur með ýmsum hætti.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hælir sér af mótvægisaðgerðum, 10 milljarðar á þremur árum. Þær mótvægisaðgerðir skila sér ekki til fólksins sem þarf á þeim að halda. Þær skila sér ekki til sjómanna eða fiskvinnslufólks nema í mjög litlum mæli og nánast ekkert, það er varla hægt að tala um það. Ég hef margoft bent á það að sú mótvægisaðgerð sem hefði áhrif á alla væri að setja allan fisk á fiskmarkað. Í fyrsta lagi fengju sjómenn þá fullt verð fyrir fiskinn, sveitarfélög full hafnargjöld, ríkissjóður fulla skatta af tekjum og útsvarið færi til sveitarfélaganna. Þetta eru aðgerðir sem hefðu haft verulega mikið að segja og auðvitað hefði átt að aðskilja veiðar og vinnslu í leiðinni.

Ég geri mér grein fyrir því að ýmissa breytinga er að vænta í sjávarútvegi. Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur lagt til að við breytum fiskveiðistjórnarkerfinu okkar. Ég trúi ekki öðru en ríkisstjórnin og hæstv. forsætisráðherra, Geir H. Haarde, og utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, leitist við að uppfylla þau skilyrði sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna fer fram á að verði gert.

Ég hef verið talsmaður þess að virkja og nota fallvötnin okkar og heita vatnið til að skapa atvinnu og tekjur. Ég hef líka talað tæpitungulaust um að ég vilji álver. Ég hef mælt með því að við settum í gang álver í Helguvík og líka á Bakka við Húsavík. Ég held að það séu verkefni sem við eigum að fara í núna til þess að bregðast við því sem við megum búast við á næstunni, samdrætti í atvinnulífinu með ýmsum hætti. Við eigum auðvitað að skoða með netþjónabú og útflutning á vatni og annað. En þegar rætt er um virkjanir og álver er það eitt sem maður skilur ekki og það er mengunarkvótinn. Hver gefur út starfsleyfið, hvernig á að gera það og hvenær? Hvar og hvenær eiga sveitarfélög, fyrirtæki og þeir sem ætla að selja rafmagn eða orku til álvera, netþjónabúa eða annarra fyrirtækja sem þurfa mikla orku, að fá starfsleyfi? Það er hlutur sem maður hefur ekki skilið hvernig eigi að standa að.

Það er alveg ljóst að verulega hefur hallað undan fæti á hlutabréfamarkaðnum — sumir kalla það náttúrlega bara réttum nöfnum og tala um hlutabréfahrun — og bankarnir eiga í verulegum erfiðleikum. Blikur eru á lofti í þessum geira. Húsbyggingar eru að dragast saman, bólan sem hefur verið í byggingarbransanum er að hjaðna verulega og við heyrum fréttir af því að fyrirtæki með 100 manns í vinnu hafi sagt 95 manns upp — ég held það hafi verið í fréttum síðast í gær.

Vaxtaokur er hvergi meira á byggðu bóli en á Íslandi. Hvergi í hinum vestræna heimi þarf fólk að borga jafnmikið í vexti og kostnað af því að taka peninga að láni. Lánakjör hjá okkur eru nánast þau verstu sem þekkjast með hárri verðbólgu og verðtryggingu. En til þess að forðast atvinnuleysi og þær hörmungar sem því fylgja þurfum við að halda áfram að reyna að byggja upp og búa okkur til auknar gjaldeyristekjur. Það eru auðvitað fleiri þættir sem hefði þurft að ræða hér, eins og skiptingu tekna á milli ríkis og sveitarfélaga. Það er dálítið skondin staða (Forseti hringir.) að alltaf skuli halla á sveitarfélögin.