135. löggjafarþing — 74. fundur,  4. mars 2008.

mat á umhverfisáhrifum.

435. mál
[16:49]
Hlusta

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, með síðari breytingum. Meðflutningsmenn mínir eru hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, Álfheiður Ingadóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Ögmundur Jónasson, Kolbrún Halldórsdóttir og Atli Gíslason.

Líkt og í frumvarpi því sem ég mælti fyrir áðan er markmið þessa frumvarps að standa vörð um náttúruna gagnvart þeirri ógn sem heræfingar eru og jafnframt að gera almenningi og hagsmunaaðilum kleift að fylgjast með umfangi slíkrar starfsemi og koma athugasemdum á framfæri í samræmi við markmið og anda laganna um mat á umhverfisáhrifum.

Því er lagt til að klausu um heræfingar verði bætt við 12. lið 2. viðauka laganna en sá viðauki hefur að geyma upptalningu á þeim fjölmörgu framkvæmdum sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og meta þarf í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skulu mati á umhverfisáhrifum samkvæmt þessum lögum.

Við 12. lið 2. viðauka bætist sem sagt nýr stafliður svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Heræfingar, þar með talið lágflugsæfingar, utan varnar- og öryggissvæða.“

Líkt og fram kom í framsöguræðu minni hér á undan viljum við flutningsmenn árétta þá skoðun okkar að heræfingar hafi engu jákvæðu hlutverki að gegna fyrir íslenskt samfélag og æskilegast væri að stjórnvöld úthýstu þeim með öllu. Þar til því markmiði hefur verið náð teljum við hins vegar mikilvægt að hin mikilsverðu lög um mat á umhverfisáhrifum verði virkjuð í því skyni að draga eins mikið úr umhverfisskaða heræfinga og mögulegt er.

Í 1. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er gerð grein fyrir markmiðum laganna. Þar kemur fram að þeim er ætlað að draga eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum framkvæmda, stuðla að samvinnu þeirra sem hagsmuna hafa að gæta eða láta sig málið varða og tryggja sem besta upplýsingamiðlun til almennings vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Allir ættu að geta samþykkt ágæti þessara markmiða.

Nú er það kunn staðreynd að starfsemi af hernaðarlegum toga, þar með taldar heræfingar, getur haft í för með sér mikil og neikvæð umhverfisáhrif. Hernaðarstarfsemi er oftar en ekki afar mengandi, má í því samhengi benda á mengunarsvæði á og við gömlu herstöðina á Miðnesheiði og gömul skotæfingasvæði bandaríska hersins á Reykjanesskaga. Einnig mætti rifja upp mengun af bandarískum ratsjárstöðvum, t.d. á Heiðarfjalli. Öll sú saga og sú þrautaganga sem landeigendur þar eystra hafa mátt þola til að reyna að fá íslensk og bandarísk yfirvöld til að viðurkenna ábyrgð sína er góð áminning um hve mikilvægt er að byrgja brunninn áður en barnið er dottið ofan í hann. Jafnvel þeir sem hvað dyggilegast studdu veru bandaríska hersins hér á landi hljóta að viðurkenna að ferill hans í umhverfismálum hefur ekki verið glæsilegur.

Í tillögunni er sérstaklega tiltekið að lágflugsæfingar skuli falla undir þessa skilgreiningu laganna. Það er ekki gert að ástæðulausu. Það er alkunna að lágflugsæfingar herþotna hafa gríðarlega hávaðamengun í för með sér. Þær geta valdið verulegu ónæði, komið styggð að dýrum og valdið óbætanlegu tjóni á lífríki. Mönnum er í fersku minni þegar tvær herþotur í lágflugi fældu allan fugl úr Látrabjargi á varptíma vorið 2002. Það er sömuleiðis þekkt úr ýmsum greinum landbúnaðar hversu skaðlegt lágflug getur verið, t.d. í loðdýrarækt þar sem læður geta tryllst og drepið afkvæmi sín.

Einnig hafa aðilar í ferðaþjónustu harðlega gagnrýnt lágflugsæfingar sem skapað hafa stórhættu í hestaferðum með ferðamenn. Má nefna gagnrýni Einars Bollasonar, framkvæmdastjóra Íshesta, í tengslum við heræfingar nokkurra NATO-þjóða hér á landi sumarið 2007. Í viðtölum við fjölmiðla af því tilefni nefndi Einar dæmi um atvik þar sem litlu mátti muna að alvarleg slys yrðu á hestafólki vegna þess að hestar fældust vegna lágflugsæfinga. Sem betur fer hafa slík slys ekki orðið hér á landi svo vitað sé en mörg dæmi eru um slíkt í öðrum löndum. Sem dæmi má nefna að allnokkur atvik hafa komið upp í Japan þar sem lágflug bandarískra herþotna hefur valdið tjóni eins og rakið var í grein í The Japan Observer frá febrúar árið 2001. Þar sagði m.a. frá hestakonu sem hálsbrotnaði þegar hún féll af baki eftir lágflug herþotu.

Virðulegi forseti. Í ljósi þeirra dæma sem hér hafa verið rakin má sjá að umhverfisáhrif heræfinga geta verið gríðarmikil sem eitt og sér ætti að teljast fullnægjandi rök fyrir að fella þær undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu gera flutningsmenn sér þó grein fyrir því að það er ekki augljóst undir hvaða lið viðaukans heræfingar eigi best heima. Vissulega mætti færa rök fyrir því að heræfingar ættu allt eins heima í 11. lið þar sem m.a. er fjallað um prófunaraðstöðu fyrir vélar og hreyfla og geymslu brotajárns. Niðurstaða flutningsmanna er þó sú að 12. liðurinn, ferðalög og tómstundir, sé betur lýsandi fyrir stríðsleiki fullorðins fólks.

Að síðustu vil ég árétta að með því að fella heræfingar undir lög um mat á umhverfisáhrifum er tryggt að hagsmunaaðilar á borð við sveitarfélög, landeigendur, ferðaþjónustufyrirtæki og útivistarfólk geti komið að athugasemdum varðandi framkvæmd um staðarval heræfinga og vonandi minnkað líkurnar á skaða vegna þeirra.

Ég vona að málið fái góðar undirtektir hér á Alþingi og verði að lögum strax á þessu vorþingi.