135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

störf þingsins.

[13:36]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er mjög eðlilegt að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson skuli hafa tekið upp þetta mál á þinginu af því að í fréttum í gær var talað við foreldri barns sem ekki hafði fengið þjónustu. Hvað er þá eðlilegra en hv. þingmenn ræði það?

Þau svör koma frá hæstv. félagsmálaráðherra að sent hafi verið út bréf þar sem fram hafi komið að bið yrði á þjónustunni þar til fjárveitingar yrðu tryggðar, þ.e. þessar fjölskyldur voru beðnar um að bíða, eins og ég skil svar hæstv. ráðherra. Fyrr hafði komið fram að einhverjum var synjað um stuðningsúrræði vegna fjárskorts. Það er lögbrot ef þessi þjónusta er ekki veitt þannig að ég hef áhuga á að vita í þessu sambandi hvort hæstv. félagsmálaráðherra hafi fengið aukafjárveitingu í gegnum ríkisstjórnina í þetta mál. Það er mjög gott ef svo er eða hvernig var þetta mál leyst? Við erum nú að ræða þessi mál í mars, í upphafi árs og þær fréttir berast að fjármagn er uppurið. Gat hæstv. félagsmálaráðherra kippt í spotta og bjargað þessu með aukafjárveitingum eða hvernig var málið leyst? Það er svolítið áhugavert að heyra það af því að við búumst við því að fleiri sambærileg mál komi upp í framhaldinu þar sem fjármagn vantar í ýmsa þjónustu og þá er fínt að vita hvaða leið hæstv. félagsmálaráðherra fór. Þá verður væntanlega hægt að fara þá leið síðar t.d. ef stuðningsfjölskyldur fá ekki úrræði eða að einhver önnur úrræði sem aðrir eiga rétt á verða ekki veitt. Ég er mjög ánægð með að hv. þm. Árni Þór skuli hafa tekið þessi mál upp og skil ekkert í viðkvæmninni í þingmönnum að menn vilji fá svör um þessi mál.