135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

störf þingsins.

[13:51]
Hlusta

Huld Aðalbjarnardóttir (F):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur fyrir sín svör. Ég þekki vel til þeirra möguleika að hægt er að sækja um flýtimeðferð á lagningu þriggja fasa rafmagns og sum svæði falla undir þann kost þar sem hægt er að fá þriggja fasa rafmagn lagt heim á einstaka bæi. En kostnaðurinn sem fellur á hvert bú við það er hátt í fjórar milljónir. Við vitum að eins og búin standa í dag er það stór hluti af þeirra rekstrarkostnaði ef þetta á að koma þar inn. Ef búin eru hins vegar tilbúin að bíða þá fylgir því óverulegur kostnaður að fá inn þriggja fasa rafmagn.

Eins og kom hér fram hjá hv. þm. Bjarna Harðarsyni eru um 150 kílómetrar lagðir á hverju ári. Það þýðir að það tekur ríflega 25 ár að leggja þriggja fasa rafmagn heim á öll bú, 25 ár. Það verður ýmislegt búið að gerast í tækniþróun í landbúnaðinum þá. Ég held því að við ættum að standa öll saman að því að styrkja landsbyggðina vegna þess að hér er greinilega um mikinn aðstöðumun að ræða og það hallar augljóslega á þá sem hafa aðeins aðgang að einfasa rafmagni.

Frú forseti. Ekki síst á tímum hækkandi verðs á áburði, kjarnfóðri, olíu og matvælum þurfa stjórnvöld landsins að bretta upp ermarnar og vinna hratt í þessu mikilvæga sanngirnis- og byggðamáli sem snertir okkur öll.