135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

störf þingsins.

[13:56]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Í tengslum við þessa fyrirspurn stjórnarliðans hv. þm. Marðar Árnasonar vil ég gjarnan svara því til hér að þau orð sem upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar hefur um þetta eru í fullu samræmi við það sem Landsvirkjun hefur áður sagt. Hann er þeirrar skoðunar, sem ég deili með Landsvirkjun, fyrirtækinu, að virkjunarkostir í Neðri-Þjórsá eru þeir albestu í landinu sem gefast nú um stundir og óábyrgt að nýta þá ekki þegar það liggur vel við. Vilji fyrirtækisins til þess að virkja þarna hefur aldrei verið neitt launungarmál.

Ég lít ekki svo á að Landsvirkjun fremur en önnur ríkisfyrirtæki hafi Alþingi í vasanum og geti beitt það fjárkúgun, eða „blackmail“ eins og hv. þingmaður orðaði það svo smekklega hér áðan. Það stendur ekki til og stjórnarmeirihlutinn á Alþingi mun ekki láta fara þannig með sig, og velkominn í þann hóp.

Ég vil vitna til þessarar sömu fréttar í Fréttablaðinu. Þar er haft eftir hæstv. iðnaðarráðherra að hann fagni þessum áformum Landsvirkjunar. Ég tek svo sannarlega undir þau orð sem höfð eru í niðurlagi fréttarinnar og vænti þess að allir stjórnarþingmenn, sem og aðrir fulltrúar á hinu háa Alþingi, fagni þeim áformum sem þarna eru á ferðinni.

Það er einboðið að leggja til og nýta til þess alla kosti að styrkja efnahagslegan grunn landsins á þeim tímum sem nú fara í hönd. Hér er mjög gott mál á ferðinni og engin ástæða til að ætla að fyrirtækinu líðist að vinna þannig með Alþingi — og það er heldur ekki líðandi að gefa í skyn að eitthvert fyrirtæki úti í bæ geti farið þannig með Alþingi að til móðgunar sé. Það er rangt og óheiðarlegt að gefa slíkt í skyn.