135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

gjaldmiðilsmál.

439. mál
[14:11]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Bjarni Harðarson) (F):

Frú forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. En ég get ekki þakkað eða fagnað sérstaklega því svari sem ég fékk frá hæstv. ráðherra. Ég vil koma þeim misskilningi frá.

Ég spurði hæstv. ráðherra ekki að því hvort hann hefði lesið greinar eftir mig. Málið snýst ekki um það. Ég spurði hann um afstöðu hans til þeirrar umræðu sem nú er hafin í samfélaginu, m.a. að frumkvæði og fyrir tilstuðlan tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar og Illuga Gunnarssonar.

Ég get í því samhengi umorðað spurninguna ef hæstv. forsætisráðherra hugnast betur að svara því: Telur hann þær tillögur sem þeir hafa vakið máls á nú síðustu tvo daga — ég reikna með að þótt hæstv. forsætisráðherra hugnist ekki að lesa greinar eftir mig þá kynni hann sér þó það sem samflokksmenn hans segja — að það sem þeir hafa stungið upp sé athugunar virði eða eitthvað sem algerlega er út úr kortinu, líkt skilja mátti af ummælum hv. þm. Helga Hjörvars?

Varðandi þau ummæli stórvinar míns hv. þm. Árna Johnsens um að þetta sé „horngrýtis kjaftæði“, að tala um gjaldmiðilinn og við ættum að halda í sjálfstæðið, þá er ég honum sammála um að við eigum að halda í sjálfstæðið. Ég held aftur á móti að mjög lítið af þessu sjálfstæði hangi á því í dag að eiga sjálfstæðan gjaldmiðil. Gengi þessa gjaldmiðils er ekki eitt af því sem við stjórnum. Honum er stjórnað af alþjóðlegum fjármálaspekúlöntum og það helsta sem við höfum af þessum gjaldmiðli eru erfiðleikar og tap. Við segjum það ekki við fólk sem borgar þá ofurvexti sem nú eru af íbúðarhúsnæði eða við fyrirtæki sem sligast undan vaxtabyrðinni að þau séu bara með horngrýtis kjaftæði.