135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

löggæsluskóli á Keflavíkurflugvelli.

371. mál
[14:44]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björk Guðjónsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir svörin og auðvitað vona ég að niðurstaða í þessu máli liggi fyrir sem fyrst. Eins og ég rakti í ræðu minni áðan eru mjög mörg rök sem hníga að því að þessi skóli eigi best heima í gömlu stöðinni uppi á Keflavíkurflugvelli. Þar þarf jafnframt, tel ég, að gera ráð fyrir að enn fleiri starfsgreinar á öryggissviðinu eigi aðgang að kennslu og þjálfun í slíkum skóla því að í nánustu framtíð verða án efa til störf á þessu sviði sem við sjáum ekki fyrir í dag.

Hins vegar má segja að vísir að skóla á sviði öryggis- og flugakademíu hafi verið stigið nú í febrúarmánuði þegar fagskóli Keilis og flugmálastjórn á Keflavíkurflugvelli gerðu með sér samning um að Keilir taki að sér að annast fræðslustarf það sem er á ábyrgð flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli frá og með 1. ágúst nk. Um er að ræða svonefnd flugverndarnámskeið ætluð þeim sem sækja um aðgangsskírteini að flugvellinum. Þá er um að ræða þjálfun fyrir öryggisverði, vopnaleit o.s.frv. Á síðasta ári var um 1.700 nemendum sinnt með slíkum námskeiðum.

Það hlýtur að kosta mikið fé að byggja upp aðstöðu fyrir löggæslu- og öryggismálaskóla með allri þeirri aðstöðu sem þarf. En með því að nýta þá aðstöðu sem fyrir er á Keflavíkurflugvelli og hefja samstarf við fagskóla Keilis hlýtur að vera hægt að spara fjármagn og því er hagkvæmasta lausnin að aðstaða skólans verði þar.