135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík.

[15:47]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér kemur til umræðu utan dagskrár sameining Iðnskólans í Reykjavík og Fjöltækniskóla Íslands undir yfirskriftinni Einkavæðing Iðnskólans í Reykjavík. Enn einu sinni langar mig til að óska eftir því að menn rugli ekki saman hugtökum. Við erum að tala hér um „public-private partnership“ sem er ekki það sama og einkavæðing heldur er um að ræða einkarekstur sem fyrir mér er allt annað mál. Hér er verið að tala um hluti sem við í Samfylkingunni höfum stutt að því gefnu að aðrir þættir séu í lagi, þ.e. að tryggð sé sama þjónusta og annars yrði veitt, þar sem fylgt er sömu reglum og hjá opinberum stofnunum og að ekki sé um að ræða gjaldtöku umfram það sem er annars staðar.

Það er líka athyglisvert í þeim samningum sem ég hef fengið tækifæri til að skoða að það er ekki arðsemissjónarmið á bak við þetta félag, það er klárt ákvæði um að verði ágóði af rekstrinum renni hann inn í starfsemina, ágóði sem skapast af eignum og öðru slíku kemur til gagns innan skólanna og eins og hæstv. menntamálaráðherra gerði grein fyrir gilda ekki á einn eða neinn hátt aðrar reglur um þennan skóla en gilda munu um aðra framhaldsskóla í landinu. Það hefur líka komið fram að hagsmunir starfsmanna og réttindi þeirra verða tryggð við þessa breytingu sem er afar mikilvægt mál og ég treysti á að því verði fylgt fast eftir að hagsmuna þeirra verði gætt.

Þarna koma Samtök atvinnulífsins að rekstri iðnmennta- og starfsmenntaskóla og mig langar til að minna á og er eitt af því sem þarf að fylgjast mjög vel með, en það er aðkoma annarra skóla, m.a. skóla á landsbyggðinni, starfs- og iðnmenntaskóla annars staðar á landinu, að hagsmuna þeirra verði gætt þannig að þessi skóli fái ekki forgang umfram aðra í kerfinu. Markmið Menntafélagsins og menntamálaráðuneytisins eru afar háleit og ég bið menn um að kynna sér þau. Ég ber engan kvíðboga fyrir þessari breytingu og óska nýjum skóla alls hins besta í starfsemi sinni.