135. löggjafarþing — 75. fundur,  5. mars 2008.

áhrif af samdrætti í þorskveiðum.

423. mál
[18:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fyrirspurn í þremur liðum til hæstv. sjávarútvegsráðherra um áhrif af samdrætti í þorskveiðum, sem er umtalsverður eins og kunnugt er, en leyfðar þorskveiðar á þessu fiskveiðiári eru aðeins 130 þúsund tonn en voru áður 193 þúsund tonn og samdrátturinn er því um þriðjungur. Við mat á áhrifum til lengri tíma skiptir auðvitað máli hversu lengi og viðvarandi samdrátturinn verður og þegar haft er í huga hvernig rökstuðningurinn er fyrir því að skera þurfi niður þorskkvótann svona mikið verður ekki hjá því komist að ætla að niðurskurðurinn hljóti að verða langvarandi. Meginröksemdin fyrir þessum niðurskurði er að draga úr veiðum á ungum fiski þannig að aldurssamsetning hrygningarstofnsins breytist og á þann veg að hann verði eldri að jafnaði, of mikið af hrygningarstofninum sé ungur fiskur og nýr fiskur þurfi vaxa upp þannig að að nokkrum árum liðnum verði aldurssamsetningin þannig að miklu stærri hluti hans en nú er sé eldri fiskur. Í ljósi þess að það tekur fjögur ár að fá nýjan árgang inn í hrygningarstofn frá hrygningu er augljóst að þetta tekur nokkuð langan tíma. Ég spyr því í fyrsta lagi:

Hvenær áætlar ráðherra að leyfður þorskafli á einu fiskveiðiári hafi aftur náð a.m.k. 190 þúsund tonnum miðað við þær forsendur sem núverandi ákvörðun um 130 þúsund tonn byggist á?

Meta þarf áhrifin af samdrættinum sem augljóslega verða í nokkur ár. Hæstv. ráðherra benti sjálfur á það á sínum tíma, í nóvember 2002 á heimasíðu sinni þegar hann var að meta þáverandi hugmyndir um samdrátt á þorskveiðum niður fyrir 200 þúsund tonn, að það hefði mikil áhrif á samþjöppun aflaheimilda að draga kvótann svona mikið saman á þann veg að minnkandi veiðiheimildir leiddu af sér aukinn samdrátt, aukna samþjöppun veiðiheimilda og að minnkandi magn af þorski mundi veikja stöðu okkar á erlendum fiskmörkuðum þannig að markaðsstaða okkar mundi versna. Því leyfi ég mér að spyrja í öðru lagi:

Hver verður þróunin að mati ráðherra varðandi samþjöppun veiðiheimilda á samdráttartímabilinu?

Og í þriðja lagi:

Hvað telur ráðherra að skaði Íslendinga verði mikill vegna tapaðrar hlutdeildar á erlendum mörkuðum?