135. löggjafarþing — 76. fundur,  6. mars 2008.

orkuframleiðsla.

[10:50]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Það er viðurkennt almennt að ál sé umhverfisvænn málmur. Hann léttir bifreiðar og sparar orkunotkun. Við Íslendingar búum við íslenskt ákvæði í Kyoto-samkomulaginu um að blása megi út 1,6 þús. tonnum af koltvíoxíði. Það er sem sagt þak á því hvað framleiða megi hér af orku, eða áli og slíku.

Nú ætla ég að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort það geti verið að þetta þak valdi því að þessi framleiðsla flytjist til landa þar sem rafmagnið er framleitt með brennslu á heilum fjöllum af kolum og olíu, t.d. í Kína, Suður-Afríku og á Indlandi. (Gripið fram í.) Ef framleiða á ákveðið magn af áli í heiminum þá hlýtur að vera margfalt skynsamlegra að gera það á Íslandi.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ekki markmið hennar á Balí-ráðstefnunni að í staðinn fyrir að Íslendingar hafi heimild til að framleiða orku þá bjóði þeir mannkyninu að framleiða umhverfisvæna orku á Íslandi án takmarkana. Við erum með tvo þriðju okkar virkjanlegu orku óvirkjaða. Hún er ónýtt og gæti nýst mannkyninu í því að berjast gegn þeirri vá sem koltvíoxíðsmengunin er. Fyrir þá sem trúa þeirri kenningu, og ég hallast að því að hún sé rétt, að koltvíoxíðsmengunin valdi hitnun jarðar þá ætti það að vera markmið Íslands í eftirfylgni Balí-ráðstefnunnar að bjóðast til að framleiða meira rafmagn á Íslandi með umhverfisvænum hætti án mengunar til þess að (Forseti hringir.) framleiða t.d. ál eða knýja annan orkukrefjandi iðnað.