135. löggjafarþing — 78. fundur,  12. mars 2008.

skipting fjárveitinga til heilbrigðisþjónustu.

364. mál
[15:03]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er talað um að rugla umræðuna. Ég verð að segja að hæstv. ráðherra virðist ekki vita hver er munurinn á einkarekstri, opinberum rekstri og félagslegum rekstri. Munurinn á rekstri sem félagasamtök sjúklinga eða aldraðra sjómanna hafa með höndum og eiginlegum einkarekstri er sá að einkareksturinn er rekinn í hagnaðarskyni. Reykjalundur og Hrafnista eru aftur á móti stofnanir sem eru reknar þannig að ef einhver afgangur verður, ef arður verður af starfseminni þá fer hann beint í að styrkja hana enn frekar. Þetta er munurinn. Það er ekki verið að sjúga arð út úr þeim rekstri.

Vegna þessa hugtakarugls kemst hæstv. ráðherra að því að endurhæfing sé 63% í höndum einkaaðila. (Forseti hringir.) Hann er þá væntanlega að tala um Reykjalund, SÍBS, Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra (Forseti hringir.) og að hjúkrunarheimili (Forseti hringir.) aldraðra séu þess vegna 70% í (Forseti hringir.) einkarekstri. Þá er Hrafnista væntanlega einkarekstur, (Forseti hringir.) eða hvað? Þetta er þvílíkur hugtakaruglingur (Forseti hringir.) sem ráðherrann gerir sig uppvísan um hér að, herra forseti, það verður að (Forseti hringir.) gera harkalega athugasemd við það.