135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

störf þingsins.

[10:45]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Við sem komum hér stöku sinnum höfum kannski meiri yfirsýn yfir það hvernig mál þróast á þinginu í stórum dráttum. Ég hef gaman af því að koma hingað, af því ég hef reynsluna úr stjórnarandstöðu frá síðasta kjörtímabili og sjá hvernig stjórnarandstæðingar frá því þá eru núna stjórnarsinnar og öfugt, og til að meta hvernig stjórnarsinnar hafa það og hvernig stjórnarandstöðunni gengur.

Ég verð að viðurkenna að ég hlakkaði svolítið til að koma hingað í dag, sem er síðasti dagurinn að þessu sinni sem ég verð á þinginu, af því að það er svo margt í fréttum. Ég átti von á því að kraftmiklir stjórnarandstæðingar ræddu t.d. fréttir um skattamál, um afrek ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í skattamálum gagnvart barnafjölskyldum, (KolH: Við erum búin að biðja um sérstakar umræður um það.) öryrkjum og gagnvart öldruðu fólki. (KolH: Af hverju …) Ég átti von á því að það yrði rætt í dag. (KolH: Af hverju …) (Forseti hringir.) Ég átti kannski von á því að menn ræddu hér um Helguvík, að við ræddum um álver og ræddum um efnahagsmál í framhaldi af því. (KolH: Það er líka …) Gerði stjórnarandstaðan það? (Gripið fram í.) Nei, stjórnarandstaðan gerði það ekki.

Ég átti kannski von á því líka að … (Gripið fram í.)

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn í salnum að gefa ræðumanni hljóð.)

Forseti. Það er algjör óþarfi að bera skjöld fyrir mig. Ég get hækkað róminn gegn þeim röddum sem hér koma upp.

Ég átti kannski von á að menn vildu ræða samgöngumál vegna þess að það hefur lekið út að hæstv. samgönguráðherra og fleiri eru á blaðamannafundi núna að kynna mikil áform, mikil gleðitíðindi að mörgu leyti, í samgöngumálum sem þarf að ræða. En nei, þá kemur stjórnarandstaðan upp og þrasar um utandagskrárumræður, (KolH: … Segir hver?) utandagskrárumræður sem er klárt, af öllum þeim umræðum sem hér fara fram, að hafa ekkert gildi. Allra minnst gildi fyrir alla. Ekkert fyrir þingmennina. Ekkert fyrir áhorfendur og ekkert fyrir þá sem eru að fylgjast með.

Ég held, forseti, að það væri rétt að stofna hérna stjórnarandstöðuskóla til þess að kenna stjórnarandstæðingum hvernig á að veita (Forseti hringir.) heilbrigða og lýðræðislega stjórnarandstöðu. Ég skal vera skólastjóri í þeim skóla.