135. löggjafarþing — 79. fundur,  13. mars 2008.

störf þingsins.

[10:49]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég verð að segja að ég var að frétta af samtali heilbrigðisráðherra og hv. þm. Ögmundar Jónassonar fyrst núna. Það var alla vega ekki fyrir milligöngu mína eða með vitneskju minni og sjálfsagt ekki með vitund fleiri þingflokksformanna. Við höfðum því ekki tækifæri til að ræða það.

Hitt er annað mál að það er mjög undarleg gagnrýni sem hér kemur fram á að hæstv. heilbrigðisráðherra sé ekki tilbúinn að ræða þessi mál. Eins og ég tók fram áðan voru þessi mál m.a. rædd í fyrirspurnartíma í gær. Þar gafst mönnum tækifæri til að koma að athugasemdum.

Seinni partinn verður rætt um málefni sem hæstv. heilbrigðisráðherra ber fram. Það er reyndar utan hins hefðbundna tíma sem við höfum skipulagt utandagskrárumræður innan. En mér finnst eðlilegt að við tökum þessa umræðu á góðum tíma, þegar við venjulega erum með utandagskrárumræður og það verði gert með góðum fyrirvara eftir páskana. Þá verður hægt að ræða, sem ég tel alveg fullkomlega eðlilegt, um hina góðu heilbrigðisþjónustu okkar Íslendinga. Hvernig við viljum haga henni, hvort hluta af henni verði útvistað frá stofnunum og gerðir þjónustusamningar um einstaka hluta heilbrigðisþjónustunnar. Þetta er sjálfsagt að ræða.

Satt að segja kom mér verulega á óvart framlag hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur (Forseti hringir.) sem talaði eins og hún og hennar flokkur hefði aldrei komið nálægt heilbrigðiskerfinu á Íslandi. Það var mjög dularfullt innlegg (Forseti hringir.) í umræðuna.