135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

4. fsp.

[15:31]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er gott að heyra að hæstv. samgönguráðherra skuli vera kominn inn á þá braut af þeim krafti sem skilja mátti af ræðu hans því það er orðið verulega tímabært að ríki og yfirvöld á höfuðborgarsvæðinu geri í sameiningu bragarbót á samgöngum. Slík bragarbót verður ekki gerð nema með átaki í almenningssamgöngum.

Við vinstri græn höfum lagt fram fleira en eitt mál varðandi það að að sjálfsögðu eigi að hjálpa fyrirtækjum sem flytja inn almenningsvagna, t.d. með því að virðisaukaskatturinn verði felldur niður á sama hátt og gert er varðandi hópferðabíla, við höfum einnig lagt til að olíugjaldið verði endurgreitt að fullu en þessu tvennu er verulega ábótavant. Ég hvet hæstv. samgönguráðherra áfram til dáða í þessum efnum, að tryggja það að almenningssamgöngur fái þann forgang sem nauðsyn krefur til þess að hægt sé að draga úr umferð einkabílsins og losun á kolefni frá samgöngum hér á höfuðborgarsvæðinu sem eykst sífellt.