135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

tæknifrjóvgun.

183. mál
[15:44]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er um mjög vandmeðfarið mál að ræða sem fjallað hefur verið rækilega um í heilbrigðisnefndum tveggja þinga. Almenna umræðu um efni frumvarpsins og álitamál því tengd hefur þó skort. Vísindasiðanefnd hefur fjallað mjög ítarlega um frumvarpið sem hér liggur fyrir og nefndin mun hafa eftirlit með framkvæmd laganna sem er mjög mikilvægt í mínum huga.

Það er brýnt að standa þannig að fjárveitingum til vísindasiðanefndar að hún geti sinnt vel þessu nýja og mikilvæga hlutverki. Ég vil einnig nefna það hér að það er brýnt að auka fjárveitingar til Blóðbankans vegna rannsókna á stofnfrumum. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs munu styðja þetta frumvarp.