135. löggjafarþing — 81. fundur,  31. mars 2008.

starfsemi Breiðavíkurheimilisins 1952–1979.

429. mál
[17:10]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég byrja á því að þakka fyrir þá miklu skýrslu sem hér liggur fyrir og alla vinnu sem liggur að baki henni. Skýrslan greinir frá átakanlegri sögu, 27 ára sögu, líftíma Breiðavíkurheimilisins og er áfellisdómur yfir opinberri stjórnsýslu í barnaverndarmálum á þessu tímabili. Tímabilið er 1952–1979. Það er skelfilega nálægt okkur í tíma finnst okkur þegar við lesum lýsingarnar sem þar er að finna.

Umræðan hér er um það hvernig ríkisstjórn sú sem nú situr ætlar að axla ábyrgðina á mistökum genginna ríkisstjórna í þessum efnum. Við höfum nú heyrt frá hæstv. forsætisráðherra hvernig ríkisstjórnin hyggst taka á þessu máli. Ég geri ráð fyrir því að ríkisstjórnin njóti aðstoðar við það frá þingmönnum sem munu fjalla áfram um skýrsluna inni í nefnd og ég fagna að hún skuli fá þá meðferð.

Hæstv. forsætisráðherra tjáði okkur að frumvarp mundi líta dagsins ljós fyrri hlutann í maí varðandi skaðabætur til þeirra fórnarlamba sem vistuð voru á Breiðavíkurheimilinu og er það í sjálfu sér gott og má nýta fyrirmyndir frá Noregi. Hæstv. forsætisráðherra sagði okkur líka að þriggja ára vinna verði sett í gang þar sem kannað verði með almennum hætti önnur heimili þar sem börn voru vistuð á þessu tímabili. Ég minni á að lögin sem við samþykktum á sínum tíma taka eingöngu til heimila sem hætt eru rekstri. Við erum ekki að tala um heimili sem eru í rekstri í dag. Síðan megum við vænta úrbóta á fyrirkomulagi í barnaverndarmálum. Þessi þrjú atriði eru veigamestu atriðin og það er mikilvægt og þakkarvert að heyra yfirlýsingu forsætisráðherra í þessum efnum.

Það vantar þó fjórða atriðið sem einnig er nauðsynlegt. Biðja verður fólk afsökunar. Ríkisstjórnin og stjórnmálamenn sem bera merki opinberrar stjórnsýslu í dag þurfa að biðja fólk afsökunar á þeim rangindum sem það varð fyrir í barnæsku. Ég tel að það þurfi að bæta því í registur ríkisstjórnarinnar í þessu máli.

Virðulegi forseti. Það er ekki einungis að Breiðavíkurmálið veki okkur til aðgerða í barnaverndarmálum og málefnum vistheimila fyrir börn og unglinga. Það vekur okkur líka til umhugsunar varðandi kynferðisbrotamál og misnotkun á börnum almennt. Við þurfum t.d. að hafa í huga að á síðasta ári náðist samkomulag í sérfræðinganefnd Evrópuráðsins um tillögur að samningi um vernd barna gegn kynferðislegri misnotkun. Mér er reyndar ekki kunnugt um hvort samningurinn hefur litið dagsins ljós enn þá en mér þykir það líklegt. Ég veit þó að tillögur sérfræðinganefndarinnar gengu út á að ríkjum og ríkisstjórnum ber að hafa úrræði á takteinum sem gripið er til þegar upp koma mál sem varða kynferðisbrot gagnvart börnum. Úrræðin eru öflugar forvarnir, stuðningur og meðferð fyrir fórnarlömb slíkra glæpa fram eftir öllum aldri og síðast en ekki síst verklagsreglur í meðferð mála á rannsóknarstigi og fyrir dómi.

Vonast er til þess að samningur sem byggir á tillögum þessum geti valdið tímamótum í meðferð á kynferðisbrotamálum gegn börnum og þau hafa þá sérstöðu að meðhöndla þarf fórnarlömb þessara glæpa þótt fórnarlömbin séu komin á fullorðinsár. Það sannar það mál sem við erum að fjalla um hér.

Auðvitað þarf að koma börnum og ungmennum sem leiðst hafa á glapstigu til hjálpar í dag en ekki síður foreldrum þeirra og fjölskyldum. Það var ekki gert á tímabilinu sem Breiðavíkurheimilið var rekið.

Í fréttum fyrir tæpu ári kom fram að þá hafi verið starfrækt á Íslandi sex meðferðarheimili á landinu með pláss fyrir 40 börn eða unglinga og við höfum dæmi um það í dag að börn eru vistuð á meðferðarheimilum allt niður í sjö ára aldur. Á sama tíma sýna erlendar rannsóknir að lítill árangur næst með stofnanavistun barna og unglinga og er það jafnvel talin varhugaverð leið í dag. Þetta verðum við að taka til alvarlegrar skoðunar í þessu sambandi. Barnaverndarstofa er til að mynda á því að okkur beri að bjóða fjölskyldum vandaða faglega aðstoð inni á heimilum eins og gert er í nágrannalöndum okkar í stað þess að rífa börnin upp með rótum og fjarlægja þau frá foreldrum sínum og ættingjum eins og gert var í tilfelli Breiðavíkurdrengjanna.

Fleiri heimili hefur borið á góma eins og kom fram í máli hæstv. forsætisráðherra í umræðu um þessi alvarlegu mál. Þar hefur kannski borið hæst greinar sem skrifaðar hafa verið um Kumbaravog og meðferðarheimilið þar. Komið hafa fram alvarlegar ávirðingar sem auðvitað verður að skoða auk fleiri heimila. Silungapollur og fleiri heimili eru nefnd í skýrslunni í því sambandi. Ég velti því lengi fyrir mér hvernig best væri að fara í þessi mál, hvort næst eigi að fara í næststærsta heimilið eða næstalvarlegustu ávirðingarnar. Ég held satt að segja að þessi niðurstaða sem hér er orðin, að taka þrjú ár í almenna athugun á öllum heimilunum samkvæmt þeirri aðferðafræði sem hér hefur verið gefin forskrift að, sé sú rétta. Þá geri ég fastlega ráð fyrir því að heimili sem búið er að opna vandamálin hjá eins og Kumbaravogsheimilið hljóti að verða þar afar framarlega í röðinni.

Það er athyglisvert þegar skýrslan er lesin að þar má í raun og veru finna fyrstu drög að sögu barnaverndarstofnana á Íslandi en eins og kemur fram í fróðlegri samantekt Braga Guðbrandssonar hefur sú saga aldrei verið skrifuð sem er afar athyglisvert í sjálfu sér. Mörg hefur nú sagan verið skrásett sem kannski er þegar öllu er á botninn hvolft ekki jafnmerkileg og saga barnaverndarmála á Íslandi.

Skrásetning sú sem Bragi Guðbrandsson hefur innt af hendi fyrir þetta verkefni er afar dýrmætur brunnur og ég treysti því að hún verði uppspretta frekari skráningar í náinni framtíð um aðstæður olnbogabarna þjóðarinnar á öldinni sem leið.

Framhaldið já. Við höfum heyrt um þau meginatriði sem hæstv. forsætisráðherra leggur áherslu á að ríkisstjórnin ætli að gera. Ríkisstjórn, Alþingi og alþingismenn þurfa að taka afstöðu til þess hvernig hlutur þeirra sem þurftu að líða þessar misgjörðir og þjáningar verði bættur. Það er ljóst af orðum hæstv. ráðherra að samin verður löggjöf og ég geri ráð fyrir þar verði stuðst við reynslu Norðmanna. Það kemur ekki fram í skýrslunni, ef mér skjöplast ekki, hversu háar skaðabætur eða sanngirnisbætur, eins og Norðmenn hafa kallað þessar bætur, hafa verið dæmdar einstaklingum í Noregi. Eftir því sem ég kemst næst við skoðun þá virðist ábyrgðin skiptast þar á ríki og sveitarfélög eftir tilteknum reglum. Stortingsmelding nr. 24 frá 2004–2005 fjallar um þetta mál í norskum þingskjölum. Þar kemur fram að tvenn hagsmunasamtök eða stuðningshópar þessa fólks hafi farið fram á skaðabætur frá norskum yfirvöldum og skaðabótaupphæðin sem sett var fram í kröfunni hafi verið á bilinu 500 þús. norskar kr. upp í 725 þús. norskar kr. á mann.

Í Stortingsmelding nr. 24 frá 2004–2005 kemur líka fram krafa þessara hagsmunasamtaka að greiðslurnar frá ríki eigi að vera óháðar greiðslu frá sveitarfélagi og nokkur sveitarfélög hafi þegar sett á laggirnar úthlutunarnefndir í því skyni að reyna að finna sanngjarna lausn á bótagreiðslunum. Sveitarfélagið Bergen greiðir t.d. einstaklingum allt að 725 þús. norskar kr. eftir mat úthlutunarnefndar en Stórþingið ákvað svo að greiða einstaklingum bætur óháð því sem sveitarfélögin gerðu og um slíkar bætur hafa sótt um 1800 manns og hafa þeir fengið úthlutað á bilinu 50 þús. til 200 þús. norskar kr. úr ríkissjóði.

En af fréttum fjölmiðla í Noregi að dæma þá virðist vera erfiðleikum háð að innheimta þessar bætur og kvartað er undan löngum biðtíma. Ég treysti því að ekki verði um slíkt að ræða hér á Íslandi heldur verði þetta mál sett í forgang með þeim hætti sem best verði fyrir komið.

Það er líka nauðsynlegt að áframhaldandi geðheilsuþjónusta standi þeim til boða sem á henni þurfa að halda. Að mínu mati ætti einnig að tryggja nánum ættingjum viðkomandi þjónustu en þeir hafa ekki síður þurft að búa við sársauka og kvöl. Núgildandi framkvæmd barnaverndarlaganna þarf líka að skoða eins og hæstv. ráðherra hefur lofað okkur í ræðu sinni. Enn fæðast börn sem þurfa á umönnun vandalausra að halda, börn sem samfélagið þarf að leggja lið við að komast á legg. Hvað verður um þau börn í dag í okkar ríka samfélagi? Nú eru lög nr. 26/2007 þannig úr garði gerð að þau ná ekki til stofnana sem starfræktar eru við gildistöku þeirra. Það er nauðsynlegt að ríkisstjórnin hafi vakandi auga með þeirri starfsemi sem rekin er í dag í því augnamiði að koma vanræktum börnum til hjálpar. Skyldur þær eru viðamiklar og þær fela í sér ábyrgð á því að réttur lærdómur hafi verið dreginn af mistökum fortíðarinnar.

Stöðuna í dag þarf ríkisstjórnin að þekkja og upplýsa aðra um. Hún þarf að sannfæra þjóðina um að réttur lærdómur hafi verið dreginn, að sagan endurtaki sig ekki að nokkru leyti og að lög um vernd barna og ungmenna séu höfð í heiðri en ekki hunsuð.

Í skýrslu nefndarinnar eru hugmyndir reifaðar þar sem bent er á leiðir sem fara má í þessum efnum. Þær koma fram í köflum 13, 14, 15 og 16 í skýrslunni. Ég tel einsýnt að þar sé búið vísa veginn og fagna því sem kom fram í máli hæstv. ráðherra að Viðar Már Matthíasson prófessor í skaðabótarétti skuli verða hafður með í vinnunni við að semja frumvarp varðandi skaðabæturnar.

Hæstv. forseti. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að horfast í augu við þann veruleika sem Breiðavíkurdrengirnir hafa afhjúpað þjóðinni. Við skulum ekki gleyma því hvernig það ferli hófst. Það er afar athyglisvert að skoða það í þessu sambandi og ég veit ekki hvort það stendur mér nærri vegna þess að ég á rætur að rekja í listgreinunum. Það voru kvikmyndagerðarmennirnir sem gerðu myndina um Breiðavíkurdrengina og Breiðavíkurheimilið sem komu málinu upphaflega á hreyfingu og urðu þess valdandi að gleymdir eða grafnir hlutir tóku að lifa á ný og leituðu yfirborðsins. Ég held að myndin um Breiðavíkurheimilið sé skýrt og afar jákvætt dæmi um það hvernig listirnar geta verið spegill á samfélagið, hreyfiafl í samfélaginu sem hreyfir við öllum og verður á endanum þannig afl að það verði til góðs og knýr á um breytingar. Mér sýnist að kvikmyndagerðarmennirnir sem gerðu myndina um Breiðavíkurheimilið eigi mikinn heiður skilinn fyrir að hafa þorað inn í þetta mikla mikilvæga mál og ekki síður fórnarlömbin, drengirnir sem dvöldu á Breiðavíkurheimilinu og ættingjar þeirra sem komið hafa fram með sögur sínar.

Á þeim orðum ætla ég að ljúka máli mínu, hæstv. forseti, og treysti því að hér verði vel haldið á spöðunum. Við megum ekki draga lappirnar í þessu máli. Það þarf að ljúka því. Það þarf að koma þeim frumvörpum fram sem talað er um. Það þarf að tryggja umgjörð barnaverndarmála í dag og það þarf að biðja fórnarlömb þeirra misgjörða sem hér er um fjallað afsökunar.