135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:36]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hef fylgst nokkuð grannt með þeim hræringum sem orðið hefur vart í tengslum við löggæsluna á Suðurnesjum og þá sérstaklega og ekki síst á Keflavíkurflugvelli, bæði hvað varðar toll- og löggæslu, lögreglustarfið. Ég held að óhætt sé að segja að ekki sé aðeins deilt um skipulag þessarar starfsemi heldur einnig um þann fjárhagsramma sem henni er sniðinn. Ég varð var við það á mjög fjölmennum fundi, sem efnt var til nýlega á vegum lögreglumanna innan Landssambands lögreglumanna og tollvarða innan Tollvarðafélags Íslands, að þar hafa menn mjög þungar áhyggjur af of litlum fjárveitingum til þessarar starfsemi. Menn eru nú að leita leiða til að ráða bót á fjárhagsvanda og komið hafa fram tillögur um skipulagsbreytingar. Ég hvet til þess, og geri það í samráði við og eftir að hafa heyrt í mönnum innan löggæslunnar, innan Tollvarðafélagsins og innan Landssambands lögreglumanna, að menn grafi sig ekki ofan í skotgrafir heldur leiti lausna og leiða til að leysa þau ágreiningsefni sem uppi eru. Að mínum dómi verður það aðeins gert í nánu samstarfi við þau samtök sem ég vísaði til og hafa lýst yfir vilja til að leysa málin.