135. löggjafarþing — 82. fundur,  1. apr. 2008.

Sundabraut.

[14:22]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við í Frjálslynda flokknum höfum í mörg ár talað fyrir því og flutt um það tillögu á hv. Alþingi að taka upp auknar áherslur í samgöngumálum til langrar framtíðar, meðal annars með sérstakri áherslu á jarðgangagerð á landinu sem og þverun fjarða og styttingu vegalengda með sérstöku tilliti til þess að auka umferðaröryggi almennt. Minna má á að Hvalfjarðargöng, Vestfjarðagöng, Reyðarfjarðar- og Fáskrúðsfjarðargöng, Almannaskarðsgöng svo eitthvað sé nefnt eru dæmi um vel heppnaðar framkvæmdir og hafa aukið umferðaröryggið hér á landi. Vissulega eru jarðgöng dýr en þau eru varanleg lausn og við hljótum, hæstv. forseti, að þurfa að horfa á varanlega lausn fyrir næstu framtíð, langt inn í framtíðina. Ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni að því er það varðar.

Sundabrautin er ein af þeim lausnum sem menn horfa á til langrar framtíðar og það á að horfa á hana með því hugarfari. Reyndar held ég að það þurfi að líta á allar samgöngur út frá Reykjavík með nýjum og framsýnum hætti. Ég hef reyndar ekki komið auga á það hvernig menn ætla að setja niður 20–40 þús. manna byggð hér vestan til í borginni án þess að búa til nýjar samgönguæðar út af því svæði. Ég held að menn hljóti að þurfa að hugsa það á nýjan leik.

Hæstv. forseti. Nú erum við enn að fara í eitt umhverfismatið á Sundabraut, það fjórða eða fimmta — ég man ekki hvort heldur var — sem hæstv. ráðherra nefndi. Tafir á gerð Sundabrautar eru orðnar mjög erfiðar og dýrar fyrir þetta svæði og það væri æskilegt að flýta því eins og kostur er.

Ég minni á, hæstv. forseti, að á síðasta þingi var samþykkt tillaga okkar frjálslyndra um auknar áherslur á umferðaröryggi með gerð jarðganga og þverun fjarða. (Forseti hringir.) Sundabrautin er ein af þeim leiðum sem við höfum lagt til og við styðjum það heils hugar að hún verði gerð sem allra fyrst.