135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:53]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það liggur við að maður þurfi stiga upp í ræðustólinn eftir að hv. þm. Jón Magnússon er búinn að skrúfa hann upp.

Það er vert að ræða miklar hækkanir á orkuverði og mótmælin gegn þeim. Satt best að segja skilur maður ekki af hverju ríkisstjórnin er ekki búin að gera það sem er augljóst og hefði hvort eð er þurft að vera búið að gera, að lækka olíugjaldið á dísilolíu þannig að hún yrði aftur a.m.k. einhverjum krónum ódýrari en bensín á lítra eins og alltaf stóð til að yrði. Ég skil ekki þann sofandahátt að fela slíkt í nefnd því að það er ákaflega einfalt að gera og halda sig við upphafleg verðhlutföll þarna á milli.

En það sem ég vil gera að umtalsefni er för utanríkisráðherra og forsætisráðherra á NATO-fundinn í Búkarest. Þrátt fyrir að ég, á fundi í utanríkismálanefnd á mánudaginn, óskaði eftir fundi með ráðherra áður en farið yrði á NATO-fundinn þannig að kostur gæfist á því að ræða og koma fram sjónarmiðum um þá afstöðu sem þar yrði tekin fyrir Íslands hönd, samanber lögbundna samráðsskyldu ríkisstjórnar við utanríkismálanefnd um mikilvæg mál, reyndist ekki unnt að koma á slíkum fundi.

Þegar kom til reglubundins fundar utanríkismálanefndar í morgun voru utanríkisráðherra og forsætisráðherra á leið til útlanda, í flugvél eins og þjóðin veit. Þar af leiðandi gafst ekki kostur á að ræða við þau. Þar með gerist það enn að utanríkismálanefnd er sniðgengin í aðstæðum sem þessum. Þó eru á dagskrá NATO-fundarins í Búkarest óvenjumörg stór og óvenjuumdeild álitamál eins og möguleg aðild Úkraínu og Georgíu að NATO, eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjamanna í Miðaustur-Evrópu, staðan í Afganistan og fleira. Það er mjög ámælisvert, ég gagnrýni það, herra forseti, og kem því á framfæri, að ríkisstjórnin skuli hunsa, nú sem áður, lögbundna samráðsskyldu sína við utanríkismálanefnd Alþingis og Alþingi.