135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

vegtenging fyrir vatnsverksmiðju við Hlíðarenda í Ölfusi.

436. mál
[15:30]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Það er svo sem engu við það að bæta en ég er nú svolítið hissa á því ef sveitarfélagið Ölfus hefur ekki fengið svar við erindi sem borist hefur ráðuneytinu og skal ég kanna það.

Hins vegar er auðvitað öllum ljóst og það þekkja allir sem hafa samgönguáætlun fyrir framan sig að ekki er gert ráð fyrir fjárveitingu til uppbyggingar á þessum vegarkafla í samgönguáætlun 2007–2010. Það er þá m.a. forgangsröðun sem sett hefur verið af þingmönnum síðasta kjörtímabils, þar á meðal af þingmönnum Framsóknarflokksins. (Gripið fram í.) Þannig að þetta eru nú staðreyndirnar sem blasa við okkur.

Ég sagði þó ekki að það ætti ekki að gera neitt fyrir 2010. Þetta er auðvitað ákveðið verkefni og það er ánægjuleg atvinnuuppbygging sem þarna á sér stað með vatnsverksmiðjunni sem verið er að byggja. Þá liggur auðvitað í augum uppi að fyrst það er okkar hlutverk að koma að lagningu þessa vegar munum við ekki gera þar veg sem tilheyrir einhverjum gömlum Krýsuvíkurvegi sem ekki er nútímalegur. Það er augljóst að við verðum að standa okkur í stykkinu hvað það varðar.