135. löggjafarþing — 83. fundur,  2. apr. 2008.

undanþága frá skattlagningu á mengun frá flugvélum.

413. mál
[18:13]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég legg fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra:

Hvernig hyggst ráðherra afla fylgis við sérstöðu Íslands þannig að undanþága fáist frá væntanlegum reglum Evrópusambandsins um skattlagningu á mengun frá flugvélum?

Í janúar síðastliðnum lagði hæstv. utanríkisráðherra fram skýrslu um Ísland á innri markaði Evrópu og á bls. 15 og 16 í þeirri skýrslu er fjallað um það kvótakerfi sem tekið verður upp í ESB gagnvart flugi, þ.e. losun gróðurhúsalofttegunda frá flugi. Það kemur fram í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra að íslensk stjórnvöld muni áfram þrýsta á um að sérstaða landfræðilega einangraðra svæða eða ríkja verði viðurkennd. Þegar maður les skýrsluna áttar maður sig á því að á Íslandi eru 80 stórar flugvélar á skrá og færð eru rök fyrir því að vegna landfræðilegrar legu landsins, þ.e. landið er eyja langt úti í hafi, sé erfitt að nýta sér aðra samgöngumáta eins og að keyra eða taka lest til næstu landa — það er ekki uppi á borðinu — og ekki fer margt fólk í ferðalag með skipum, þá sé flugið hentugasti mátinn fyrir okkur til að ferðast til annarra landa. Það er sem sagt meiningin að hæstv. umhverfisráðherra og aðrir í ríkisstjórninni og í forustu landsins reyni að fá þessa sérstöðu viðurkennda og þá væntanlega til að borga hlutfallslega minna fyrir þá mengun sem kemur frá flugvélum okkar.

Mér finnst þetta mjög merkilegt mál, virðulegi forseti. Ég styð það að reynt verði að ná þessu fram, mér finnst það alveg réttlætanlegt, en mér finnst mjög merkilegt að hæstv. umhverfisráðherra skuli vera að vinna í þessu máli af því að hæstv. umhverfisráðherra sem nú situr hefur alltaf talað mjög mikið gegn svokölluðu íslensku ákvæði í Kyoto-bókuninni sem gengur út á það að nota endurnýjanlega orkugjafa til að framleiða ál í stóriðju. Það blasir við að það er umhverfisvænt ákvæði, það er betra fyrir lofthjúpinn að nota endurnýjanlega orku við þá framleiðslu en kol og olíu eins og gert er víða annars staðar, en í þessu tilviki með flugið þá er ekkert umhverfisvænt við það, ekki nokkur skapaður hlutur. Það er sama olía notuð á okkar flugvélar og flugvélar allra annarra landa. Það kemur því svolítið vel á vondan að hæstv. núverandi umhverfisráðherra þurfi að taka þetta að sér í ljósi þess að viðkomandi hæstv. ráðherra hefur skotið hitt ákvæðið niður sem er þó umhverfisvænt. Mig langar að spyrja, virðulegi forseti: Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að við fáum þessa sérstöðu viðurkennda?