135. löggjafarþing — 84. fundur,  3. apr. 2008.

aukið álag á heilsugæsluna.

[10:51]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég varð var við þá frétt sem vísað var til um lækninn á Akureyri sem var með þessar yfirlýsingar. Viðbrögð mín voru einfaldlega þau að ég vildi fá upplýsingar um þetta og kalla eftir þeim. Miðað við þær upplýsingar sem hafa komið fram til þessa er ekkert sem bendir til þess að það hafi verið óeðlileg aukning í komum barna. Hins vegar ef það kemur fram, þá förum við yfir það. Nákvæmustu upplýsingarnar sem við höfum fengið eru frá Læknavaktinni sem sýna verulega aukningu hjá heilsugæslunni eða á komum til hennar en það er hlutfallslega ekki meira af börnum en öðrum.

Til þess að því sé til haga haldið hver hugsunin var með því að létta af komugjaldi barna. Við þekkjum það öll að það gekk ekki vel á sínum tíma þegar létt var af komugjöldum almennt, það var fyrirkomulag sem menn voru sammála um að hverfa frá vegna þess að það reyndist ekki vel og kannski af augljósum ástæðum. Hins vegar er það þannig að ég held að við þurfum sérstaklega að hugsa til barnanna, ekki vegna þess að þau séu í sjálfu sér vandamál heldur er það nú svo að þau búa við misjafnar aðstæður. Maður hefur séð ýmislegt sem bendir til þess og það hefur kannski alltaf verið og verður kannski alltaf að börn búa við misjafnt ástand eða aðstæður. Ef þau eru í slíkum áhættuhópi, ef þannig má að orði komast, þá skiptir máli að þröskuldurinn fyrir sjálfsagða þjónustu eins og heilsugæslan er sé eins lágur og mögulegt er.

Ef sú staða kemur upp að þetta leiði til einhverra hluta sem við viljum ekki sjá, þá er sjálfsagt að fara yfir það. En eins og ég vek athygli á, virðulegi forseti, kalla ég eftir þessum upplýsingum og ég hef ekki enn fengið neinar upplýsingar, hvorki frá Akureyri né annars staðar, sem skjóta stoðum (Forseti hringir.) undir þessar fullyrðingar.