135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[15:47]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá skýrslu sem hér liggur frammi. Eins og við mátti búast er miklu fleira sem sameinar þingheim allan, hygg ég að megi segja, í utanríkismálum en hitt sem skilur okkur að og því er það svo að ég get tekið undir flest ef ekki allt. Nú hef ég ekki lesið skýrsluna alveg til hlítar, en þar sem ég hef hlaupið á henni er ég mjög ánægður með þau sjónarmið sem þar koma fram. Þeim sjónarmiðum er lýst mjög vel í niðurlagskafla í inngangi, að okkur Íslendingum hefur vegnað best þegar við höfum haft mikil og góð samskipti við aðrar þjóðir og það er ekki farsælt að leið okkar í alþjóðasamstarfinu sé leið einangrunar og það að ætla bara að búa að sínu.

Það er líka ánægjulegt að sjá að hér er nokkuð fjallað um þjóðfrelsi og kvenfrelsi og þá miklu krafta sem frelsi þjóða og frelsi fólks gefur af sér. Ég er mjög sammála því mati hæstv. utanríkisráðherra að Íslendingar hafi mikið fram að færa í alþjóðasamfélaginu hafandi verið fátækt þróunarland og nýlenda til skamms tíma en náð að rísa upp til bestu lífskjara á stuttum tíma. Við höfum ekki einungis mikið fram að færa, við getum líka lært heilmikið af því að skoða sögu annarra nýfrjálsra þjóða til að skilja okkar eigin sjálfsmynd, við eigum margt sameiginlegt með þeim.

Hæstv. utanríkisráðherra vék að þeim hugmyndum og þeim kröfum sem stundum koma upp í umræðu um alþjóðamál, að Íslendingar eigi að slíta stjórnmálasambandi við þjóðir þar sem mannréttindi eru brotin, eigi þannig að fara fram af fullri hörku. Ég er sammála hæstv. utanríkisráðherra að það er ekki leiðin til áhrifa. Það er einmitt mjög mikilvægt að við notum okkur þær leiðir sem það opnar að hafa jákvæð og mikil samskipti við þjóðir til þess að beina umræðu þar og stjórnmálaþróun til réttrar áttar.

Við höfum fjölmörg dæmi um þetta úr alþjóðastjórnmálum síðustu ára. Eitt það skýrasta eru samskipti umheimsins við Kína. Til skamms tíma ríkti mikil ógnarstjórn í Kína og þar voru mannréttindi að engu virt. Þar hefur margt breyst til hins betra og það hefur gerst með jákvæðri aðlögun og jákvæðum samskiptum Kínverja og Vesturlanda. Það er mikilvægt að sú þróun haldi áfram og mjög margt er að gerast þar núna eins og við sjáum af þeirri miklu umræðu sem verður um málefni Kína í tengslum við Ólympíuleikana og Ólympíukyndilinn sem nú fer um heiminn.

Ég var því nokkuð hugsi yfir þeim orðum hæstv. utanríkisráðherra í fjölmiðlum fyrir skemmstu að atburðir í Tíbet nú geti engin áhrif haft á afstöðu okkar Íslendinga til sjálfstæðiskröfu Tíbeta. Sjálfstæðiskrafa Tíbeta er tvímælalaust til, hún er virk stjórnmálaþróun í landinu þó að hún sé bönnuð og hún er til þrátt fyrir að Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, hafi ekki viljað ganga svo langt að setja hana fram enda langt í frá að hann, eða þjóð hans, búi við það lýðræðislega frelsi að geta sett hvaða skoðun sem er fram, að geta talað frjálslega um þessa hluti.

Ég held með öðrum orðum að það sé mjög mikilvægt í allri umræðu um þetta mál núna að við gætum okkar, og ég kalla eftir viðbrögðum, bæði utanríkisráðherra og líka fulltrúa annarra flokka í utanríkismálanefnd, við því hvort það sé í alvöru ósveigjanleg stefna að þróun mála í Tíbet nú geti ekki haft nein áhrif á afstöðu okkar hvað það varðar að Kína skuli ævinlega vera eitt ríki og Tíbet skuli ævinlega vera þar undir. Við vitum að það er ekki þar undir af fúsum og frjálsum vilja Tíbeta og við vitum að samskipti milli kínversku stjórnarinnar í Peking og Tíbeta hafa ekki að öllu leyti verið góð. Það breytir ekki því að þar hefur margt farið batnandi á síðustu árum og staðan er nú gerólík því sem hún var fyrir 10 eða 20 árum, við skulum alveg viðurkenna það. Og það er að hluta til vegna þrýstings frá Vesturlöndum og þess vegna er mikilvægt að við höldum þeim þrýstingi áfram. Ég fagna því yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra í ræðu sinni hér áðan þar sem hún lýsti því yfir að hún hefði rætt það við fulltrúa stjórnar í Kína að þeir skyldu virða mannréttindi í Tíbet. Ég hef efasemdir um að við eigum að blanda saman umræðunni um eitt Kína. Við viðurkennum auðvitað og höldum uppi stjórnmálasambandi við Kína, ég geri mér alveg grein fyrir því. Með því höfum við í rauninni viðurkennt yfirráð þeirra yfir Tíbet rétt eins og við höfum viðurkennt yfirráð Ísraelsmanna yfir vissum hluta af Vesturbakkanum, en það er samt mjög til skoðunar hvort sú þróun sem þar er núna og sú mikla gerjun sem er á alþjóðlegum vettvangi geti ekki að einhverju leyti breytt þeirri afstöðu okkar og ég held að við eigum að vera því viðbúin.

Ég er mjög ánægður með kafla skýrslunnar um Afríkumál, ég held að það sé rétt mat að Afríka hafi mjög mikið stjórnmálalegt vægi. En ég sakna þess að ekki skuli í skýrslunni — ég hef alla vega ekki séð það, en hef ekki lesið hana frá orði til orðs enda kom hún fyrst í morgun fyrir mín augu — minnst á Vestur-Sahara og baráttu þeirra. Ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan einn af þingmönnum Samfylkingarinnar spurði sérstaklega þáv. utanríkisráðherra, Valgerði Sverrisdóttur, um málefni Vestur-Sahara. Ég hygg að enginn pólitískur ágreiningur sé um það mál en ég held að það sé mikilvægt að við Íslendingar gleymum ekki þessari smáþjóð sem reynir að heyja sitt sjálfstæðisstríð þrátt fyrir afar þrönga og erfiða stöðu. Ég hvet utanríkisráðherra til að vera minnuga þess að taka þau mál einnig til skoðunar. (Gripið fram í.) Hér liggur fyrir tillaga frá því á haustdögum frá nokkrum þingmönnum, minnir Steingrímur J. Sigfússon, hv. þm. Norðurlands, mig á, og það hef ég séð. Ég held að það sé mikilvægt að við gleymum ekki smáþjóðum. Við erum lítil þjóð sem getur haft mikil áhrif til góðs fyrir smáþjóðir og verðum að muna eftir því verkefni.

Ég kalla síðan eftir skýringu á einni setningu hér í lokin, tími minn er að verða útrunninn. Í niðurlagi ræðu hæstv. utanríkisráðherra segir, með leyfi hæstv. forseta, í framhaldi af því að fjallað er um samskipti við útlönd:

„Aldrei fyrr hafa þessi sannindi verið jafnskýr og augljós og nú þegar efnahagsmál og alþjóðamál eru eitt og sama verkefnið.“

Þessa setningu skil ég ekki alls kostar en ég vona að það sé ekki skilningur hæstv. utanríkisráðherra að við eigum að láta afstöðu okkar í alþjóðamálum fara eftir hagsmunum okkar í efnahagsmálum. (Forseti hringir.) Það er hættan í utanríkismálapólitík okkar og með því verðum við ekki trúverðug. Það skiptir máli, (Forseti hringir.) t.d. í þeim málefnum sem ég hef talað um hér bæði varðandi Marokkó, Sahara og Tíbet.