135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[16:48]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þegar múrinn féll og breytingarnar miklu urðu um miðaustanverða Evrópu með upplausn Varsjárbandalagsins og falli Sovétríkjanna urðu sögulegir atburðir og allt í einu komst hreyfing á hluti sem höfðu meira og minna verið frosnir fastir í hálfa öld á fimbulkuldaskeiði kalda stríðsins. Þá mistókst að mínu mati að grípa sögulegt tækifæri til að breyta um áherslur og draga meðal annars úr áherslu á vígvæðingu og draga úr hættunni á vígbúnaðarkapphlaupi en á nýjum forsendum.

Sumpart má segja að svipað tækifæri hafi komið upp í hendur okkar Íslendinga sjálfra í þrengri skilningi þegar herinn fór. Þá sköpuðust aðstæður til að endurmeta áherslur okkar í þessum efnum. Ég á ekki von á því að það fyrsta sem mönnum hafi þá dottið í hug var að eftir tvö ár yrðu komnir 1,5 milljarðar kr. inn á íslensku fjárlögin í hernaðarútgjöld. Mér finnst undarlegt að ekki skuli hafa verið meiri umræða um hvort þess sé þörf. Ég tek undir ræðu sem flutt var áðan af hv. þm. Paul Nikolov. Er það virkilega þetta sem brýnast er að setja peningana í ef við teljum okkur hafa þá til ráðstöfunar?

Hernaðarhyggjan er meðal annars pólitískur stuðningur við þau gríðarlegu útgjöld sem vígbúnaðarbrjálæðinu og sóuninni þar fylgir. Veit hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir hvað Íraksstríðið er talið hafa kostað Bandaríkjamenn? 3.000 milljarða bandaríkjadala segir hagfræðingur með Nóbelsverðlaun í hagfræði í farteskinu, 3.000 milljarða bandaríkjadala. Al Gore sagði að fyrir bara einnar viku útgjöld mætti gera stóra hluti af þeim sem hann er að berjast fyrir á sviði umhverfismála, fyrir einnar viku útgjöld Íraksstríðsins. Það er þetta líka sem menn skrifa upp á með þjónkuninni við þessa hugmyndafræði, stuðninginn við hernaðarhyggjuna og hann hefur því miður ekki horfið þó að herinn sé farinn.