135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:06]
Hlusta

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég veit nú ekki hvort það er svaravert að mér gangi til einhver sérgæskusjónarmið þó að ég hafi þá skoðun að hin svokallaða friðargæsla Íslendinga, meðan hún lýtur stjórn fjölþjóðahersins í Afganistan og er undir fullum vopnum, sé ekki það sem ég vil halda að sé eiginleg þróunaraðstoð friðelskandi þjóða.

Ég endurtek að ég tel að það séu næg tilefni í þessum harða heimi til þess að Íslendingar geti fundið þróunaraðstoð sinni farveg og þess vegna eiginlegri friðargæslu og friðaruppbyggingu annars staðar en þar sem stríðsátök geisa og — eins og hér hefur verið bent á — NATO tekur fullan þátt í og ber ábyrgð á. Þetta hefur ekkert með sérgæsku að gera, þetta er bara einföld afstaða. Ég tel að Íslendingar eigi að nýta það tækifæri sem við höfum sem herlaus þjóð og við eigum ekki að vera í stríðsleikjum, jafnvel þótt hægt sé að kalla það friðargæslu samkvæmt skilgreiningum einhverra stofnana úti í heimi.