135. löggjafarþing — 86. fundur,  8. apr. 2008.

utanríkis- og alþjóðamál.

556. mál
[18:38]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum ekki viðurkennt rétt Ísraelsmanna til að hafa höfuðborg í Jerúsalem. Í sjálfu sér veit ég ekki til þess að við höfum nokkurn tíma samþykkt eða léð máls á því að Ísraelsmenn gætu tekið sér það land sem þeir tóku með hernaði í sex daga stríðinu og/eða síðar eða fyrr. Ég veit því ekki annað en að íslensk stjórnvöld séu gersamlega saklaus af því að hafa gert það.

Ég hygg hins vegar að ég og hv. þm. Bjarni Harðarson séum sammála um það meginatriði að það gengur ekki að gengið sé á rétt Palestínumanna eins og Ísraelsmenn hafa gert og gera á hverjum einasta degi. Fólk er lokað inni og það er líka lokað úti. Það eru tvöfaldar víggirðingar. Fólk færi ekki að koma framleiðslu sinni á markað og það fær ekki að kaupa sér neina hluti nema með leyfi hernámsveldisins. Það er slíkt ófrelsi að þjóð eins og Íslendingar getur ekki látið það óátalið, getur ekki samþykkt að þannig sé farið fram. Við eigum að leggja höfuðáherslu á að réttindi fólks í Palestínu séu virt, að það njóti lágmarksmannréttinda.

Ég vísaði hér áðan til ummæla hv. þm. Guðfinnu S. Bjarnadóttur um það að hugsanlegt væri að skilgreina mannréttindi, en rétturinn til lífs flokkast undir grundvallar- og höfuðmannréttindi sem engin ríkisstjórn getur komist hjá að virða. Ísraelsmenn hafa misvirt þau grundvallarmannréttindi Palestínumanna. Þeir hafa misvirt rétt þeirra til lífs þegar þeim hefur hentað í hvaða tilgangi sem verið hefur og það er fordæmanlegt. Á það getum við aldrei fallist og það eigum við ætíð að fordæma.