135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

staða samninga um svæði við Svalbarða og Hatton-Rockall.

335. mál
[12:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Grétar Mar Jónsson) (Fl):

Herra forseti. Tilefni þessarar fyrirspurnar er að samkvæmt hafréttarsáttmála eigum við rétt á veiðisvæðum, og ekki bara veiðisvæðum heldur sjálfsagt nýtingarrétti á botni bæði við Rockall og Jan Mayen. Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra hvað gangi í þessum samningum, af hverju ekki sé búið að klára þá, hvað sé í vegi fyrir því. Hugsanlega eigum við eftir landhelgisstríð út af þessum samningum. Ég gef mér það að mikið sé í húfi fyrir íslensku þjóðina að ná yfirráðum og þeim rétti sem við eigum samkvæmt alþjóðahafréttarsáttmálanum og tel þess vegna nauðsynlegt að við höldum áfram að berjast í því að ná yfirráðum yfir þessum svæðum sem við eigum rétt á. Það er um olíu að ræða, það er um fisk að ræða og hugsanlega til framtíðar litið málma og aðrar dýrmætar afurðir. Síðast en ekki síst höfum við gert samning um Jan Mayen og það er kannski spurning hvort ekki þurfi að taka hann upp og skoða hann og þess vegna legg ég áherslu á það við utanríkisráðherra hvað þessum málum líði. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvað er í deiglunni.