135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

störf þingsins.

[13:31]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til formanns landbúnaðarnefndar. Þannig var að sl. fimmtudag mælti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir frumvarpi á þinginu sem snýst um að innleiða landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins. Þegar frumvarpið hefur verið samþykkt höfum við innleitt svo til alla landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins fyrir utan styrkjakerfið.

Á sínum tíma var samið um að Ísland hefði undanþágu frá upptöku ákveðinna gerða. Með þessum breytingum mun frelsi til innflutnings búfjárafurða aukast. Breytingin hefur þó engin áhrif á það fyrirkomulag sem er við lýði á innflutningi búfjárafurða að því er varðar tolla. En samkvæmt ræðu hæstv. ráðherra Einars Guðfinnssonar þegar hann mælti fyrir málinu er meginmarkmiðið að efla fæðuöryggi og tryggja þannig hnökralaus viðskipti með örugg matvæli á innri markaði Evrópusambandsins. Öll framsetning hæstv. ráðherra var mjög látlaus eins og til að undirstrika að hér væri ekki um grundvallarbreytingu að ræða eða a.m.k. ekki sérstaklega mikla breytingu.

Síðan gerðist það á laugardaginn að hæstv. ráðherra mætti á fund með flokksfélögum sínum í Valhöll þar sem hann kynnti frumvarpið samkvæmt fjölmiðlum. Þar talaði hann um frumvarpið með stjörnur í augum og sagði þetta vera grundvallarbreytingu, að þessa stundina væri fortakslaust bann við innflutningi á ósoðnu kjöti en að það mundi breytast með frumvarpinu. Spurningin til hv. formanns nefndarinnar er þessi: Er Sjálfstæðisflokkurinn að flytja póst frá Brussel inn í þingið eða er Sjálfstæðisflokkurinn að eigin frumkvæði að breyta landbúnaðarstefnunni í grundvallaratriðum?