135. löggjafarþing — 87. fundur,  9. apr. 2008.

héraðs- og tengivegir í Norðvesturkjördæmi.

566. mál
[15:22]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær fyrirspurnir sem hér hafa komið fram frá hv. þm. Ingibjörgu Ingu Guðmundsdóttur. Hún kemur inn á mál sem auðvitað snerta kjördæmi hennar og eru mikilvæg fyrir landsbyggðina. Ég hef reynt að svara þeim eins og ég best get.

Það er kannski rétt að ítreka að þótt ég hafi nefnt 250 millj. kr. í Norðvesturkjördæmi þá var það ákvörðun ríkisstjórnarinnar að setja 750 millj. kr. í heild á þessu ári í tengivegi í landsbyggðarkjördæmunum þremur, sem við köllum sem svo. Það skiptist á landsbyggðarkjördæmin þrjú.

Ég tók sérstaklega eftir því að hv. þm. Jón Bjarnason, sem hv. þingmaður er varamaður fyrir, fagnaði því sérstaklega í umræðu um fjárlög þegar þetta var tilkynnt. Í viðauka við samgönguáætlun er skiptingin sett niður en auðvitað þyrfti miklu, miklu meira. Það vitum við alveg, eins og hv. þm. Árni Johnsen orðaði svo vel, að þetta væri æðakerfi landsbyggðarinnar.

Ég sagði í upphafi, í fyrra svari mínu að of lítið fé hefur farið í safn- og tengivegi undanfarið. Það höfum við oft rætt á Alþingi og sennilega finnst mörgum okkar vanta meira inn í vetrarviðhald. Í tíð þessarar ríkisstjórnar er hins vegar unnið fyrir metfé á þessu ári. Gallinn er sá að það vantar svo mikið á í framkvæmdum að þetta deilist mikið út.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður nefndi áðan, með sveitarfélögin, að fela þeim viðhald og umsýslu með tengivegum á þeirra svæði, þá er ég mjög jákvæður fyrir því. Ég get sagt frá því að viðræður eru í gangi við tvö sveitarfélög á Norðausturlandi sem hafa óskað eftir þessu, þ.e. Þórshöfn eða Langanesbyggð eins og hún heitir núna og Vopnafjörð. Þau ræða þetta við okkur og við höfum tekið jákvætt í það og sett í gang vinnu hvað það varðar. Sveitarfélögin hafa annars vegar skoðað það að taka að sér ákveðið vegaviðhald og ef til vill líka starfsemi flugstöðva á viðkomandi svæði og sameina við áhaldahúsarekstur sinn þannig að út komi hagkvæmur og góður rekstur. Að sjálfsögðu erum við alltaf opin fyrir hagkvæmum og góðum rekstri, að ég tali nú ekki um ef verkefnin færast til sveitarfélaganna.