135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

sjálfbær þróun og hvalveiðar.

[10:52]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég spyr hæstv. umhverfisráðherra um sjálfbæra þróun og hvalveiðar og skoðun hæstv. ráðherra á því. Eins og allir vita er þorskveiðikvótinn nú í sögulegu lágmarki, sjávarútvegsráðherra gaf leyfi til að veiða um 130 þús. tonn fiskveiðiárið 2007/2008 ásamt því sem nýafstaðin loðnuvertíð var ein allra lélegasta á síðari árum.

Á meðan er vitað að hrefnan ein og sér étur um milljón tonn af fiski ásamt því að aðrar hvalategundir éta aðra milljón tonna af fiski. Því er um gríðarlega háar tölur að ræða sem höfuð fæðukeðjunnar étur af fiski sem er náttúrlega ein af grundvallaratvinnugreinum þjóðarinnar. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún telji að hér sé um sjálfbæra þróun að ræða en skilgreining á sjálfbærri þróun er þannig: „Sjálfbær þróun er þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja þörfum sínum.“

Það hlýtur því, hæstv. forseti, að vera vilji og skylda okkar Íslendinga að nýta nytjastofna sjávar til samræmis við meginregluna um sjálfbæra þróun. Það kallar á ábyrga veiðistýringu á öllum tegundum en sérstaklega þeim sem standa efst í fæðukeðju sjávar.

Sýnt hefur verið fram á það með nokkrum rökum að ef við Íslendingar stunduðum veiðar á hval í einhverjum mæli mætti jafnvel nýta afrakstursgetu þorskstofnsins um 20%, hækka hann um 20% og loðnunnar um 10%. Það er mikið hagsmunamál að við stundum veiðar á öllum fisktegundum hér hringinn í kringum landið í samræmi við sjálfbæra þróun. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort hún telji að hvalveiðar við strendur (Forseti hringir.) landsins séu hluti af sjálfbærri þróun okkar.