135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skýrsla OECD um heilbrigðismál.

[12:27]
Hlusta

Höskuldur Þórhallsson (F):

Hæstv. forseti. Skýrsla OECD sem hér er rædd er um margt merkileg. Í fyrsta lagi staðfestir hún að hér á landi er afar gott heilbrigðiskerfi á heimsvísu sem við Íslendingar erum öfundsverð af og getum verið stolt af. Við framsóknarmenn höfum staðið vörð um kerfið og það kom aldrei til greina að afhenda sjálfstæðismönnum það til einkavæðingar.

Í mínum huga áttum við á sínum tíma einnig að krefjast þess að fá menntakerfið því að nú vill svo merkilega til að OECD hefur gefið báðum þessum kerfum einkunn. Og viti menn, heilbrigðiskerfi framsóknarmanna fær hæstu einkunn, A+, en menntakerfi sjálfstæðismanna fær falleinkunn, D-.

Hvert var fyrsta verk Samfylkingarinnar í nýrri ríkisstjórn? Jú, það var að afhenda sjálfstæðismönnum heilbrigðismálin. Þá var kátt í Valhöll. Og hæstv. forsætisráðherra réð sér ekki fyrir kæti þegar hann tilkynnti þjóðinni að með Samfylkingunni væri sko hægt að geta hluti sem framsóknarmenn hefðu aldrei tekið í mál.

Í öðru lagi er athyglisvert í skýrslu OECD sem vissulega boðar einkavæðingu að það er viðurkennt að hún muni hafa í för með sér aukna kostnaðarþátttöku sjúklinga og almennings. Þar liggur líka grundvallarmunur á stefnu framsóknar- og sjálfstæðismanna. Heilbrigðisþjónusta í okkar huga á að vera fyrir alla óháð efnahag og ríkidæmi fólks. Þess vegna höfnum við einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Í þeim löndum sem einkavæðing hefur verið uppi á pallborðinu er staðreyndin einfaldlega sú að einkarekstur kostar meira, býður upp á minni og lélegri þjónustu, kerfið verði tvískipt og ógegnsætt og ábúðarmestu verkefnin eru plokkuð út af spítölunum sem um leið rýrir hið mikilvæga kennsluhlutverk þeirra.

Ég lýsi yfir miklum vonbrigðum með viðsnúning á málflutningi Samfylkingar hér í dag. Flokkurinn sem kennir sig við jöfnuð hefur nú hafnað honum í heilbrigðismálum. Jöfnuður almennings til heilbrigðisþjónustu hefur verið seldur fyrir völd og ráðherrastóla.