135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

skáksetur helgað afrekum Bobbys Fischers og Friðriks Ólafssonar.

492. mál
[13:35]
Hlusta

Flm. (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um skáksetur helgað afrekum Bobbys Fischers og Friðriks Ólafssonar.

Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Einar Már Sigurðarson, Ellert B. Schram, Guðfinna S. Bjarnadóttir, Guðjón A. Kristjánsson, Huld Aðalbjarnardóttir, Kristinn H. Gunnarsson, Magnús Stefánsson, Ólöf Nordal, Steingrímur J. Sigfússon og Illugi Gunnarsson. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa starfshóp til að útfæra hugmyndir um alþjóðlegt skáksetur í Reykjavík sem helgað yrði skákafrekum stórmeistaranna Friðriks Ólafssonar annars vegar og Bobbys Fischers hins vegar.“

Í greinargerð segir m.a.:

Skákmenningu Íslendinga má rekja langt aftur í aldir. Af fornum bókum má sjá að Íslendingar tefldu talsvert fyrr á öldum og um það eru ýmsar heimildir. Í Búalögum um árið 1500 er þess getið að það kosti 12 álnir að kenna að tefla.

Til þess að ná langt í skák þarf fjölþætta hæfileika. Snilli skákmeistarans er samofin úr mörgum eiginleikum hugarflugs og rökhyggju. Skákin á sér kröfu sem er sameiginleg öðrum listum, kröfu um sköpunargáfu, samræmi, einbeitingu, ástríðu, frumleika og viljastyrk. — Það er hollt að kenna öllu fólki að tefla og kannski mikilvægur undirbúningur undir lífið. Alla vega ætti það að vera regla að allir stjórnmálamenn kunni að tefla því að rökhyggjan eflist mjög með skákinni.

Friðrik Ólafsson stendur föstum fótum í íslenskri skákmenningu. Hann byggir á reynslu og afrekum þeirra íslensku skákmanna sem fóru fremstir í flokki á undan honum. Snillingar festa rætur þar sem menning og hefð eru með blóma. Rósir vaxa ekki af sjálfsdáðum á eyðisöndum. Frægðarferill Friðriks við skákborðið er langur. Vert er að sýna dálítið brot til þess að minna á hversu glæsilegur ferillinn er. — Og það er líka vert að hugsa um hverjar aðstæður voru með ferðalög og tækni á þeim tíma sem Friðrik er einn fremsti skáksnillingur heimsins.

Friðrik varð Íslandsmeistari 1952, 17 ára gamall, skákmeistari Norðurlanda 1953 og þá sá yngsti sem því marki hafði náð. Eitt kunnasta afrek Friðriks Ólafssonar er þegar hann náði efsta sæti í Hastings ásamt Kortsnoj 1955–1956. Þetta var aðeins upphafið og Friðrik átti síðar eftir að vinna marga frækna sigra á skáksviðinu. Friðrik var útnefndur stórmeistari í skák 1958, fyrsti Íslendingurinn sem náði þeim titli. Þá fór mikil hrifningaralda um íslenskt þjóðfélag. Friðrik Ólafsson hefur ritað bækur um skák, m.a. um heimsmeistaraeinvígið 1972 með Freysteini Jóhannssyni. Haft var eftir Bobby Fischer að skýringar Friðriks við skákirnar frá einvíginu 1972 séu þær bestu sem gerðar hafa verið.

Friðrik Ólafsson var kosinn forseti Alþjóðaskáksambandsins, FIDE, og Ísland varð þannig áhrifaland í skáklífi heimsins. Viðbrögð skákheimsins við kjöri Friðriks voru almenn ánægja. Fyrst og fremst var kjörið viðurkenning á einstaklingnum Friðriki Ólafssyni og lýsti trausti á honum og sýndi vinsældir hans. Í annan stað var kjörið viðurkenning á skákhefð Íslendinga. Ísland var orðið þungamiðja í skáklífi heimsins. Það er sama hversu marga og sterka skákmeistara Íslendingar eignast, Friðrik verður alltaf Friðrik. Yfir nafni hans og ferli verður alltaf einhver ævintýrablær.

Maður minnist þess frá æsku sinni og síðustu áratugum að þjóðin stóð oft á öndinni yfir snilli þessa manns, sóknarskákum hans og þeim krafti sem fylgdi honum við skákborðið. Hann var þjóðhetja og enn situr Friðrik Ólafsson og teflir. Enn er hann kallaður til móta. Enn teflir hann fjöltefli. Enn kallar hann unga og aldna að skákborðinu með snilli sinni og þar sem hann kemur og tekur þátt í mótum skortir aldrei áhorfendur. Það sáum við á Reykjavíkurmótinu og við sjáum líka að margir fremstu skákmenn heimsins koma hér. Ekki er það síst tengt nafni Friðriks Ólafssonar og hans framgöngu fyrir Íslands hönd.

Ekki ólíkt og með Bobby Fischer, þó að mennirnir geti varla verið ólíkari, var það sama rómantíkin. Það var spenna alls staðar þar sem hann fór enda var hann einn snjallasti ef ekki snjallasti skákmaður heimsins.

Robert James Fischer, best þekktur sem Bobby Fischer, varð heimsmeistari í skák 1. september 1972 eftir einvígi við Boris Spasskí í Reykjavík. Það einvígi var oft nefnt einvígi aldarinnar og endurspeglaðist baráttan í andrúmslofti kalda stríðsins sem stóð þá sem hæst. Flestir munu á einu máli um að afrek Fischers þá verði aldrei endurtekið, þær aðstæður sem ríktu þá í heiminum muni aldrei koma aftur.

Og öll minnumst við þessa sumars, þeirrar spennu sem fylgdi þessum stóru meisturum, þess mikla prúðleika og drengskapar sem Boris Spasskí hafði frammi og hefur ávallt sýnt síðan, mikill Íslandsvinur. En þetta var ógleymanlegt sumar og Ísland hefur sennilega aldrei verið jafnmikið í fjölmiðlum í hinni stóru veröld eins og í kringum það mikla einvígi. Því fylgdi mikil spenna, mikil mannleg átök þar sem skákmennirnir sýndu þor og kraft og Fischer var náttúrlega einstakur á margan hátt í framgöngu sinni og sínu áróðursstríði hvað þetta varðaði.

Fischer varð yngsti stórmeistari sögunnar og framlag hans til skáklistarinnar var einstakt. Hann var fyrirmynd heillar kynslóðar skákmanna þannig að enginn gat komist hjá því að dá hann. Frægt varð er Fischer á árunum 1970–1971 sigraði með miklum yfirburðum hvern andstæðing sinn á fætur öðrum í áskorendaeinvígjum um réttinn til að tefla við ríkjandi heimsmeistara. Þrátt fyrir langa fjarveru frá skákiðkun eftir einvígið við Boris Spasskí var hann ávallt dáður sem einn af mestu meisturum skáksögunnar.

Fischer bjó í Reykjavík síðustu æviár sín, eftir að góðir vinir hans, sem mynduðu stuðningshóp RJF, beittu sér fyrir að honum yrði veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Þeir sem mynduðu hópinn voru Einar S. Einarsson, Garðar Sverrisson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Guðmundur G. Þórarinsson, Helgi Ólafsson, Hrafn Jökulsson, Ingvar Ásmundsson, Magnús Skúlason og Sæmundur Pálsson. Mun liðveisla Alþingis og ríkisstjórnar Íslands í því máli, með Davíð Oddsson forsætisráðherra í broddi fylkingar, seint gleymast.

Og sannarlega var það nú svo að þegar neyðin var mest og vandinn stærstur leitaði Fischer til þessa lands þar sem hann varð heimsmeistari. Þar hafði hann eignast aldavini sem hann leitaði til á ögurstundu. Það er út af fyrir sig eitt af afrekum Íslendinga að hafa bjargað þessum manni undan ofsóknum Bandaríkjamanna svo að hann gæti gengið um sem frjáls maður. Afrek Alþingis og kjarkur Alþingis og ríkisstjórnar á þessum tíma að ganga í það mál mun seint gleymast, það var barátta um mannfrelsi og mannréttindi. Þökk sé þeim vinum hans og stuðningsmönnum og hvernig íslenskir stjórnmálamenn brugðust við í þessum vanda.

Bobby Fischer lést eftir baráttu við alvarleg nýrnaveikindi og var jarðsettur í kyrrþey að eigin ósk í kirkjugarði Laugardæla í Flóa hinn 21. janúar sl. Hvílir þar nú í friðsælum kirkjugarði rétt austan við Selfoss í minni gömlu sveit. Það er gott að vera í Flóanum og Hraungerðishreppurinn hefur farið vel með sín börn. En við skulum átta okkur á því að hann hvílir í íslenskri mold á þessum stað og það þýðir að margir sem elska skák munu leggja leið sína austur að Laugardælum til þess að votta honum virðingu og þökk.

Meðan skák er tefld á jörðinni mun nafn Bobbys Fischers lifa. Skákir hans verða tefldar aftur og aftur, ungum og öldnum til gleði og ánægju. Það er vert að minnast skákafreka Fischers hér á Íslandi, svo samofin er þau minningu meistarans. Þar eigum við Íslendingar ríkar skyldur við umheiminn.

Við fögnuðum honum og gáfum honum íslenskan ríkisborgararétt og buðum honum hér að vera og hér varð hann heimsmeistari. Héðan mun stafa geislum af minningu um þennan mann þannig að þó hann sé fallinn þá eigum við ríkar skyldur við þennan merkilega skákmann Íslendingar og þess vegna er þetta mál hér flutt í dag.

Alþjóðlegt skáksetur í Reykjavík yrði auglýsing fyrir land og þjóð og verðugur bautasteinn um glæstan árangur íslenskra skákmanna í þeirri hugans íþrótt sem skákin er. Skáksetur þetta mundi ekki stangast á við starfsemi fyrirhugaðrar skákakademíu hér í Reykjavík sem borgarstjórn hefur verið að hugsa um heldur mundi það þvert á móti falla vel að því verðuga og metnaðarfulla markmiði að Reykjavík standi undir nafni sem skákhöfuðborg heimsins árið 2010.

Vel færi á því að skáksetur helgað skákafrekum þessara tveggja miklu snillinga, sem á margan hátt voru einhverjir mestu sóknar- og baráttuskákmenn síðustu aldar, yrði reist. Ég er sannfærður um að margir efnamenn, bæði íslenskir og erlendir, mundu vilja koma að þessu skáksetri með Íslendingum, leggja fram fjármagn til þess að byggja það upp og gera það að veruleika.

Vinir Fischers hafa tjáð mér að þegar hafi menn haft samband sem vilja leggja peninga fram til þess að slíkt skáksetur verði að veruleika. Ég vona því að þetta þingmál fái góða umræðu og meðferð í nefnd. Í því felst styrkur að margir öflugir þingmenn flytja það með mér, þingmenn sem hafa sýnt málinu mikinn áhuga. Ég trúi því að hæstv. menntamálaráðherra muni taka þessu máli fagnandi. Ég hef rætt það við hæstv. menntamálaráðherra og hún hefur tekið því vel. Hér eru miklir möguleikar fyrir land og þjóð en mestir til þess að varðveita minningu og skákafrek tveggja fremstu skákmanna heimsins.

Að þessari umræðu lokinni legg ég til að málinu verði vísað til hv. menntamálanefndar.