135. löggjafarþing — 89. fundur,  10. apr. 2008.

stefnumörkun í málefnum kvenfanga.

514. mál
[14:49]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs sem einn af flutningsmönnum þingsályktunartillögu sem sett er fram undir forustu og að frumkvæði hv. þm. Ölmu Lísu Jóhannsdóttur og snýr að stefnumörkun í málefnum kvenfanga og stofnunar deildaskipts fangelsis fyrir konur.

Rökstuðningur hefur þegar komið fram í máli 1. flutningsmanns þingsályktunartillögunnar og ég ætla ekki að gera annað en að taka undir þau sjónarmið sem þar voru sett fram, ítreka að hér er vísað í skýrslur sem unnar hafa verið, m.a. skýrslu sem nýverið kom fram frá nefnd sem starfaði undir forustu Margrétar Frímannsdóttur, núverandi fangelsismálastjóra á Litla-Hrauni, en í þeirri skýrslu var komið inn á aðstöðu kvenfanga og framtíðarsýn varðandi kvenfanga. Í skýrslunni kemur fram að flestir þeir sem skýrsluhöfundar leituðu til eru á því máli að stefnt skuli að því að hafa sérstök fangelsi fyrir konur. Í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni er því fagnað að stigin hafi verið skref í þá átt að bjóða upp á fleiri vistunarúrræði fyrir konur en var til skamms tíma.

Hæstv. forseti. Hér er hreyft mjög brýnu hagsmuna- og réttlætismáli. Í niðurlagi greinargerðar með þingsályktunartillögunni segir réttilega að lítið hafi hreyfst í þessum málum á undanförnum árum þrátt fyrir umræður og er hér gerð tilraun af hálfu flutningsmanna þessa þingmáls til að koma þessu brýna réttlætismáli á hreyfingu.