135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

hvalveiðar og ímynd Íslands.

[13:55]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Nýlega skilaði af sér ímyndarnefnd sem forsætisráðherra setti niður til að kanna ímynd Íslands. Það var þarft verk og skýrsla nefndarinnar er um margt ágæt: „Ímynd Íslands, styrkur, staða og stefna.“

Það vakti sérstaka athygli mína umfjöllun um hvalveiðar í þessari skýrslu, í kafla 6.1 sem heitir Ímyndarkreppur, á bls. 30. Þar kemur fram að ímynd Íslands sé veikburða og auðvelt sé að koma henni í kreppuástand. Tvö dæmi eru tekin, annað sú fjármálakreppa sem nú stendur yfir, hitt dæmið eru hvalveiðar í hagnaðarskyni sem stundaðar voru sumarið 2006. Um þetta segir í skýrslu nefndar forsætisráðherra, með leyfi forseta: „… virðist ákvörðun hafa verið tekin án þess að huga vandlega að þeim vanda sem hún gæti skapað fyrir uppbyggingu og varðveislu ímyndar Íslands.“

Eftir töluverða umfjöllun um þessa ákvörðun og áhrif hennar, sem fram er sögð af ýtrustu kurteisi í nefnd forsætisráðherra, þar sem nefndin er að fjalla um ákvörðun annars ráðherra segir þetta:

„Því má segja að með upphafi hvalveiða árið 2006 hafi verið um aðgerðir að ræða sem hefði þurft að undirbúa betur með samhæfingu ákveðinna atvinnugreina og hagsmunaaðila.“

Ég tel rétt í tilefni af þessu að gefa hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kost á að svara þeim tveimur spurningum sem einkum vakna við að lesa þessa skýrslu eða þennan kafla hennar:

1. Er ráðherrann sammála nefnd forsætisráðherra um að ímynd Íslands sé mikils virði, m.a. vegna viðskiptahagsmuna okkar erlendis og t.d. ferðaþjónustunnar?

2. Er ráðherrann sammála því mati nefndar forsætisráðherra að hæstv. ráðherra hafi tekið ákvörðun sína um hvalveiðar í hagnaðarskyni sumarið 2006 án þess að huga nægilega að þeim vanda sem hún gæti skapað fyrir uppbyggingu og varðveislu ímyndar Íslands og að þessar aðgerðir hefði þurft að undirbúa betur með samhæfingu ákveðinna atvinnugreina og hagsmunaaðila?