135. löggjafarþing — 90. fundur,  15. apr. 2008.

varnarmálalög.

331. mál
[15:33]
Hlusta

utanríkisráðherra (Ingibjörg Sólrún Gísladóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Það hefur verið nokkuð athyglisvert að fylgjast með 2. og 3. umr. um þetta frumvarp til varnarmálalaga, ekki síst af hálfu vinstri grænna, vegna þess að mér fannst 1. umr. vera nokkuð hófstillt, en heldur hafa þeir nú færst í aukana eftir því sem málinu hefur undið fram og eftir að þeir hafa litið svo á að þarna væru einhver pólitísk tækifæri í málinu fyrir hreyfingu þeirra.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þm. Bjarna Benediktssyni, formanni utanríkismálanefndar, að þetta mál er fyrst og síðast algjörlega tæknilegs eðlis. Ég ætla aðeins að lýsa því hvernig þessu máli var háttað þegar ég kom að utanríkisráðuneytinu. Þá var málum þannig háttað að við rákum stofnun sem hét Ratsjárstofnun, sem sá um og tók við á síðasta ári — það gerðist reyndar ekki fyrr en í ágúst — rekstri loftvarnakerfisins af Bandaríkjamönnum. Þessi stofnun var sem sagt rekin án þess að til væri um hana nokkur lagarammi, það var enginn lagarammi, engin lög til um þessa tilteknu stofnun og auðvitað á ekki að reka stofnanir án þess að til séu lög um þær.

Þessi stofnun var ekki á fjárlögum. Með öðrum orðum, við rákum stofnunina frá 15. ágúst án þess að gert væri ráð fyrir því á fjárlögum og því þurfti að koma hér með sérstaka beiðni um að hún kæmist inn á fjáraukalög. Með öðrum orðum, við vorum með ákveðnar skyldur, ákveðin verkefni sem við vorum búin að undirgangast að taka við af Bandaríkjamönnum varðandi þessa tilteknu stofnun án þess að til væri um hana nokkur lagarammi og án þess að til væri um hana eitthvað á fjárlögum. Þannig var staðan. Það er auðvitað ekki til fyrirmyndar að þannig sé staðið að málum og því mikilvægt að koma á lögum um stofnunina, ég veit reyndar að að því hafði verið unnið í tíð fyrrverandi utanríkisráðherra að skoða hvernig standa ætti að þeim málum.

Eftir að hafa skoðað þessi mál nokkuð vel varð það niðurstaða mín að nota ætti tækifærið sem það gæfi þegar búinn væri til lagarammi um þessa tilteknu stofnun og færa verkefni sem eru varnartengd og rekstrarlegs eðlis og eru núna hjá utanríkisráðuneytinu yfir í þessa stofnun, þannig að þessi verkefni væru ekki inni í stjórnsýslunni sjálfri, heldur færi miklu betur á því að þau væru hjá sérstakri stofnun og um þau verkefni giltu ákveðin og tiltekin lög og þeim væri skipað samkvæmt lögum. Þess vegna var niðurstaðan sú að semja þetta frumvarp til varnarmálalaga þar sem kveðið væri á um þau verkefni sem tengjast veru okkar í NATO og þeim skyldum sem við höfum undirgengist af þeim sökum og eins þeim varnarviðbúnaði sem við viljum hafa í landinu að okkar eigin ósk og frumkvæði. Það sem fyrst og fremst er verið að gera hér er að búa til lagaramma um varnartengd verkefni sem m.a. leiða af veru okkar í NATO. Ég tel að slík lög eigi að vera til og þau hljóti að eiga framtíðina fyrir sér en síðan geta menn alltaf ákveðið með þessi lög eins og önnur hvort þeir vilja gera einhverjar breytingar á þeim þegar fram líða stundir.

Í þessum lögum er ekki verið að lögbinda aðild okkar að NATO. Við gerðumst aðilar að NATO samkvæmt þjóðarétti árið 1949, það er staðreynd sem er unnið út frá vegna þess að það er ekki stefna meiri hlutans á Alþingi að við segjum okkur úr NATO. Það er bara ekki stefnan. Það kann að vera stefna vinstri grænna og þeir geta þá reynt að framfylgja því ef þeir komast einhvern tíma í ríkisstjórn. Ég fékk það reyndar upp úr formanni Vinstri grænna að hann hygðist ekki leggja á það áherslu ef hann færi í ríkisstjórn. Það er sem sagt ekki stefna þingsins að við segjum okkur úr NATO og þá vinnum við út frá þeirri forsendu. Það er ekki verið að lögbinda þetta, það var gert samkvæmt þjóðarétti 1949, í þessum lögum er einungis verið að tala um þau verkefni sem tengjast veru okkar í NATO. Það er heldur ekki verið að lögbinda heræfingar á Íslandi. Það er hins vegar verið að segja í þessum lögum hvernig með þær skuli fara ef til þeirra yrði efnt á Íslandi, þannig að um það gildi ákveðinn lagarammi eins og um aðra hluti og ég hefði haldið að í því væri fólgin mikilvæg réttarbót.

Við getum síðan ákveðið, eins og kom fram í máli formanns utanríkismálanefndar, hv. þm. Bjarna Benediktssonar, ef okkur sýnist svo að hér verði ekki varnaræfingar. Við getum auðvitað ákveðið það ef við teljum að það þjóni best hagsmunum okkar að hafa hlutina með þeim hætti. Ef það verður niðurstaðan, m.a. úr hættumatsnefnd, að hér sé ekki þörf á neinum varnaræfingum þá skal ég ekki vera manneskjan til að standa hér og óska eftir þeim sérstaklega, alls ekki. En ef við höldum æfingar og ef við teljum að þörf sé á því, og það var niðurstaðan hjá NATO að það væri mikilvægt að hér væru u.þ.b. ársfjórðungslega æfingar af hálfu bandalagsþjóðanna í NATO. Af hverju komst NATO að þeirri niðurstöðu? Það komst að þeirri niðurstöðu eftir að forsætisráðherra hafði á leiðtogafundi NATO fyrir ári síðan óskað eftir því að lagt yrði á það mat hvað við þyrftum af varnarviðbúnaði. Niðurstaðan var loftvarnakerfi og ársfjórðungslegar æfingar. Það er út frá þeim forsendum sem unnið er og þetta frumvarp er lagt fram. Ef menn komast hins vegar að því að það þurfi ekki skal ekki standa á mér að fallast á þær röksemdir enda verði þær vel rökstuddar.

Kostnaðurinn við stofnunina er 1.385 milljónir, ef ég man rétt, og auðvitað eru þetta háar tölur. En þá verða menn hins vegar að hafa í huga að þetta var kostnaðurinn, ef ég man rétt, við Ratsjárstofnun eina og sér eins og hann var þegar hann var hvað mestur. Þar er því búið að skera verulega niður í útgjöldum og verið reynt að rúma þetta innan þessara fjárheimilda.

Varðandi ratsjárkerfið þá er það mín skoðun að við þurfum að hafa eitthvert slíkt kerfi í landinu til að fylgjast með lofthelgi okkar. Það sem gert er af okkar hálfu er að við fylgjumst með landhelginni okkar og lofthelginni okkar. Við fylgjumst m.a. með lofthelgi okkar með því ratsjárkerfi sem við tókum yfir þann 15. ágúst á síðasta ári. Ég er þeirrar skoðunar að það verði varla gert öðruvísi en að reka eitthvert slíkt kerfi og m.a. þess vegna er þessi lagarammi mikilvægur. Við erum með öðrum orðum fyrst og síðast í varnarmálum okkar á Íslandi ef svo má segja að fylgjast með lofthelginni hér og standa fyrir æfingum sem tengjast slíkum varnarviðbúnaði.

Álfheiðar Ingadóttir, hv. þm. Vinstri grænna, spurði að því hvort við teldum koma til greina að taka upp aukið samstarf í öryggismálum við Norðurlandaþjóðirnar og Evrópuþjóðirnar. Mér fannst þessi spurning svolítið merkileg en ég get alveg svarað henni játandi. Ef þingmönnunum hugnast það betur að við séum í öryggissamstarfi við Norðurlandaþjóðirnar er það eitthvað sem er alveg fyllilega til skoðunar og hefur m.a. verið rætt á vettvangi Norðurlanda hvort við eigum að auka öryggissamstarf okkar á Norðurlöndunum. En ég man ekki betur en formaður Vinstri grænna og þingflokksformaður þeirra hafi mótmælt sérstaklega við norska sendiráðið þegar Norðmenn komu hingað til æfinga á síðasta ári. Ég fæ því ekki séð hvaða bót er í því að vera í sérstöku öryggissamstarfi við Norðurlandaþjóðirnar og þeim hafa ekki hugnast þær viljayfirlýsingar eða samningar sem hafa verið gerðir annars vegar við Norðmenn og hins vegar við Dani á þessu sviði.

Þingmaðurinn spurði líka: Hvað með Evrópuþjóðirnar? Það skýtur svolítið skökku við að flokkur sem má ekki heyra minnst á Evrópusambandið skuli spyrja hvort við eigum að taka upp öryggissamstarf við Evrópuþjóðirnar. Það er auðvitað til öryggissamstarf á vegum Evrópusambandsins, sem er hin sameiginlega öryggis- og varnarstefna sambandsins og hún er í mikilli þróun. Ef við værum aðilar að Evrópusambandinu gætum við gerst aðilar að þeirri stefnu, en samstarf við Evrópuþjóðir á sviði varnarmála er auðvitað ekki síst í gegnum NATO. Það er nú einu sinni svo að það má halda því fram að átt hafi sér stað ákveðin Evrópuvæðing NATO á undanförnum árum með tíu nýjum Evrópuþjóðum sem hafa gerst aðilar þar á undanförnum árum. Kannski má halda því fram að ákveðin Evrópuvæðing íslenskra varna sé í gangi og getur vel verið að það verði raunin þegar menn líta á það í spegli tímans eftir einhver ár.

Ég ítreka það, virðulegur forseti, að þetta frumvarp er fyrst og fremst tæknilegs eðlis og til þess að setja lagaramma utan um þá starfsemi sem tengist veru okkar í NATO og í því er fólgin ákveðin réttarbót.

Spurt var um upplýsingaöflun sem gert er ráð fyrir að Varnarmálastofnun sinni, þ.e. að hún fái upplýsingar úr upplýsingakerfi NATO og hvernig það geti samræmst hlutverki stofnunarinnar að hún miðli þeim upplýsingum til borgaraþjónustunnar vegna þess að það kom fram í skýrslu um utanríkismál að borgaraþjónusta okkar fylgdist grannt með málum erlendis og stöðu öryggismála hjá grannþjóðunum. Auðvitað verður Varnarmálastofnun að miðla þessum upplýsingum, hún mun miðla þeim til friðargæslunnar, hún mun miðla þeim til borgaraþjónustunnar og gefa þeim upplýsingar um hvernig ástandið er í tilteknum löndum eða landsvæðum. Til þess er leikurinn gerður að auka öryggiskennd íslenskra borgara og þá þarf að sjálfsögðu að miðla þeim upplýsingum til þeirra sem hlut eiga að máli.

Ég vil nefna í þessu sambandi að ég veit ekki betur en að t.d. hjá norska utanríkisráðuneytinu sé beinlínis hægt að fara inn á heimasíðu ráðuneytisins þar sem gefnar eru ákveðnar upplýsingar um öryggisástand í tilteknum löndum og þær upplýsingar eru fengnar úr upplýsingakerfi NATO. Það er því ekki svo að skilja að vegna þess að upplýsingarnar koma í gegnum NATO-kerfið og þeir sem vinna við þetta þurfi ákveðna öryggisvottun þá sé það þannig að þeir eigi að sitja einir að þeim upplýsingum og það eigi hvergi að miðla þeim. Að sjálfsögðu ekki. Það á að miðla þeim til þeirra sem á þeim þurfa að halda til að við höfum sem gleggstar upplýsingar um öryggisástand á tilteknum landsvæðum eða í tilteknum löndum.

Virðulegur forseti. Ég ítreka að hér er á ferðinni frumvarp til laga sem gefur lagastoð verkefnum sem nú er verið að sinna án þess að lagastoð sé fyrir hendi. Frumvarpið lögbindur hvorki NATO-aðild, sem var ákveðin 1949 og tekin þjóðréttarleg skuldbinding um þá — né lögbindur hún heræfingar vegna þess að við getum ákveðið það hvenær sem er hvort við viljum hafa þær og hvernig við viljum haga þeim. Ég get fyllilega tekið undir það að best hefði auðvitað verið ef hættumat hefði legið fyrir. Ég lagði mikla áherslu á það í umræðum á Alþingi fyrir a.m.k. ári síðan, fyrir tveimur árum og jafnvel þremur árum líka að það þyrfti að vinna hættumat fyrir landið. Það hafði ekki verið gert og þess vegna setti ég þessa vinnu af stað en ég tel í sjálfu sér enga ástæðu til að bíða eftir því hættumati með að setja þennan lagaramma utan um þá starfsemi sem við rekum nú þegar á þessu sviði.