135. löggjafarþing — 91. fundur,  16. apr. 2008.

Fasteignamat ríkisins.

473. mál
[14:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin við þessari fyrirspurn. Ég vil nú minna hæstv. ráðherra á að á síðasta ári vann skrifstofan í Borgarnesi 1.769 verkefni eða um 14% af heildarverkefnum Fasteignamats ríkisins á því ári. Auk þess sinnti útibúið 568 öðrum erindum eða samtals 2.600 erindum. Það er því ekki annað hægt að segja en að þeir tveir starfsmenn sem voru þar á síðasta ári hafi unnið fyrir kaupinu sínu.

Það kemur fram í svari hæstv. ráðherra að Fasteignamat ríkisins á að spara um 75 millj. kr. og það kemur líka fram að þriðjungi af þeirri fjárhæð, 23,5 millj. kr., á að ná fram með því að strika út launakostnað stofnunarinnar í Norðvesturkjördæmi, í Borgarnesi og á Egilsstöðum. Það er líka vitað, þegar maður skoðar tölurnar um starfsemi stofnunarinnar, að hún hefur þanist út á síðustu árum, fyrst og fremst í Reykjavík.

Virðulegi forseti. Stofnuninni hefur kannski ekki verið stjórnað sem skyldi og komið fitulag í starfsemi hennar. En mér finnast það kaldar kveðjur þegar stofnun sem þanist hefur út — að forstjóri hennar skuli þá koma sér undan því að taka á raunverulegum vanda með því að höggva af tvö útibú stofnunarinnar á landsbyggðinni. Mér finnast það kaldar kveðjur þó að ég geti vel skilið að hæstv. ráðherra sé kannski sáttur við það vegna þess að útibúið á Selfossi er ósnert. Þar hefur störfum fjölgað úr fjórum í sex í Suðurkjördæmi, virðulegi forseti, þar sem hæstv. fjármálaráðherra er þingmaður.

Ég sakna þess, virðulegi forseti, að sjá ekki þingmenn stjórnarflokkanna í Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi. (Gripið fram í.) Þeir hafa ekki sést hér í salnum, þeir hafa ekki haft neitt um þetta mál að segja.