135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

Póst- og fjarskiptastofnun.

522. mál
[13:54]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003.

Breytingarnar lúta fyrst og fremst að tveimur ákvæðum laganna, annars vegar eftirlitsúrræðum Póst- og fjarskiptastofnunar skv. 5. gr. og hins vegar breytingum á fyrirkomulagi endurskoðunar ákvarðana Póst- og fjarskiptastofnunar skv. 13. gr.

Virðulegi forseti. Ég geri nú nánari grein fyrir einstökum breytingum.

Ákvæði 5. gr. laganna eiga það sameiginlegt að fjalla aðeins um eftirlit stofnunarinnar með fjarskiptafyrirtækjum og póstrekendum. Það er hins vegar svo að lög um fjarskipti og lög um póstþjónustu hafa að geyma fjölmörg ákvæði sem beinast að öðrum en þessum aðilum. Póst- og fjarskiptastofnun hefur skort eftirlitsúrræði gagnvart slíkum aðilum og er hér lagt til að bætt verði úr þeim skorti.

Lagt er til að einstaklingum og lögaðilum, öðrum en fjarskiptafyrirtækjum og póstrekendum, sé skylt að láta Póst- og fjarskiptastofnun í té upplýsingar og gögn með sambærilegum hætti og fyrrgreindum aðilum.

Með frumvarpinu eru lagðar til umtalsverðar breytingar á fyrirkomulagi endurskoðunar ákvarðana Póst- og fjarskiptastofnunar. Aðstæður á fjarskiptamarkaði hafa breyst á undanförnum árum, samkeppni hefur aukist töluvert og ríkissjóður hefur hætt öllum afskiptum af fjarskiptarekstri. Ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar hafa á undanförnum árum orðið sífellt umfangsmeiri og flóknari og byggjast oft á ítarlegum hagfræði-, lögfræði- og tæknilegum greiningum á fjölmörgum undirmörkuðum fjarskiptamarkaðarins. Slíkar ákvarðanir geta verið í vinnslu mánuðum eða jafnvel árum saman og er samráð haft við markaðsaðila og Eftirlitsstofnun EFTA áður en endanleg ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar liggur fyrir. Þessar ákvarðanir eru kæranlegar til úrskurðarnefndar um fjarskipta- og póstmál. Ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar sem kærðar voru til úrskurðarnefndar á árum áður voru minni og einfaldari í sniðum. Því þykir nú eðlilegt að ákvarðanir sem stofnunin tekur geti gengið beint til dómstóla til endurskoðunar án viðkomu hjá úrskurðarnefnd.

Jafnframt hefur kostnaður vegna starfa nefndarinnar aukist verulega og því er nú lagt til að tekið verði upp málskotsgjald vegna kæru lögaðila til nefndarinnar sem standi undir rekstri mála fyrir henni. Um leið er lagt til að skipan nefndarinnar verði breytt og hún taki mið af breyttu umhverfi. Þá er lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun geti skotið niðurstöðum úrskurðarnefndarinnar til dómstóla. Breytingarnar fela í sér stytt skipunartímabil nefndarmanna og að samgönguráðherra skipar nefndarmenn án sérstakrar tilnefningar Hæstaréttar eins og verið hefur.

Helstu breytingar sem lagðar eru til með breytingunni á 13. gr. eru eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til að málsaðili geti valið hvort hann beri ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar undir sérstaka úrskurðarnefnd eða beint undir dómstóla. Samkvæmt núgildandi lögum þarf málsaðili að tæma kæruleið innan stjórnsýslunnar áður en til höfðunar dómsmáls getur komið.

Í öðru lagi er lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun geti skotið úrskurðum úrskurðarnefndar til dómstóla, en sú heimild er ekki fyrir hendi í gildandi lögum.

Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar á skipun úrskurðarnefndar þannig að skipunartímabil styttist úr fjórum árum í tvö og að samgönguráðherra skipi nefndarmenn án sérstakrar tilnefningar Hæstaréttar eins og verið hefur hingað til.

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að tekið verði upp gjald vegna kæru lögaðila til nefndarinnar.

Þá eru að lokum lagðar til breytingar á málsmeðferðartíma og málshöfðunarfrestum. Lagt er til að hámarksmálsmeðferðartími fyrir úrskurðarnefnd verði lengdur úr átta vikum í tólf vikur og að málshöfðunarfrestur vegna höfðunar dómsmáls verði styttur úr sex mánuðum í þrjá.

Virðulegi forseti. Ég geri nú nánari grein fyrir þessum breytingum:

Skipunartímabil nefndarmanna styttist og samgönguráðherra skipar nefndarmenn án sérstakrar tilnefningar Hæstaréttar. Tilgangur breytinganna er að skipan nefndarinnar verði í betra samræmi við almennar stjórnskipunarreglur. Hérna skipta breyttar aðstæður miklu máli. Þegar úrskurðarnefndin var fyrst skipuð árið 1996 var megintilgangurinn að tryggja sjálfstæði úrskurðaraðilans gagnvart stjórnvöldum en ríkið var þá stærsti eignaraðilinn að hlutabréfum í Landssímanum hf. en fyrirtækið hefur nú verið selt.

Þau sjónarmið og þær sérstöku aðstæður sem áður réttlættu gildandi tilhögun á skipan nefndarmanna í úrskurðarnefnd eiga ekki alls kostar við lengur varðandi ágreiningsmál sem varða fjarskiptamálin, sem eru stærsti hluti þeirra mála sem koma til kasta nefndarinnar.

Hámarksmálsmeðferðartími fyrir úrskurðarnefnd verður lengdur úr átta vikum í tólf vikur. Hér er því kveðið á um lengdan málsmeðferðartíma úrskurðarnefndar en reynsla síðustu ára hefur sýnt að átta vikna málsmeðferðartími er ekki raunhæfur.

Í nýrri 3. mgr. 13. gr. er samkvæmt frumvarpinu kveðið á um að aðili máls geti skotið úrskurði úrskurðarnefndar til dómstóla. Málshöfðunarfrestur er þó styttur úr sex mánuðum í þrjá. Þetta er í samræmi við sjónarmið er fram koma í rammatilskipun ESB og framkvæmdina hjá langflestum ríkjum ESB. Þetta ætti að leiða til hagræðis fyrir málsaðila, enda getur verið hagsmunamál fyrir þá að fá niðurstöðu í málum sínum hratt og örugglega.

Þá er gert ráð fyrir því nýmæli að Póst- og fjarskiptastofnun geti borið úrskurð úrskurðarnefndar undir dómstóla. Þau mál sem lenda á borði úrskurðarnefndarinnar eru oft stefnumótandi á markaði og er fyrst og fremst ætlað að stuðla að aukinni samkeppni í fjarskiptum, neytendum til hagsbóta.

Oft er um að ræða stór og mikilvæg mál sem jafnvel hafa verið til meðferðar hjá Póst- og fjarskiptastofnun í nokkur ár, eins og t.d. ákvarðanir sem teknar eru í kjölfar ítarlegra markaðsgreininga á fjölmörgum undirmörkuðum fjarskiptamarkaðarins. Jafnframt er oft um að ræða stór og mikilvæg mál sem verið hafa lengi til meðferðar hjá stofnuninni og sum hver hafa farið í gegnum langt samráðsferli m.a. við eftirlitsstofnun EFTA, ESA, t.d. ákvarðanir sem teknar eru í kjölfar ítarlegra markaðsgreininga á fjölmörgum undirmörkuðum fjarskiptamarkaðarins. Í ljósi sjálfstæðis stofnunarinnar gagnvart faglegum ákvörðunum er því mikilvægt að hún geti, ef mál tapast fyrir nefndinni, átt kost á að skjóta þeim til endanlegrar niðurstöðu hjá dómstólum.

Í nýrri 4. mgr. 13. gr. er lagt til að málsaðili geti valið hvort hann beri ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar undir úrskurðarnefndina eða beint undir dómstóla. Samkvæmt núgildandi lögum þarf málsaðili að tæma kæruleið innan stjórnsýslunnar áður en til höfðunar dómsmáls getur komið. Þessi breyting eykur réttaröryggi borgaranna þar sem nú verður unnt að skjóta ákvörðunum Póst- og fjarskiptastofnunar beint til dómstóla, kjósi aðili máls svo auk þess sem þetta styttir ferlið til endanlegrar niðurstöðu dómstóla ef vilji stendur til þess að fara þá leið.

Í nýrri 5. mgr. 13. gr. er kveðið á um heimild nefndarinnar til að taka gjald vegna málsmeðferðar fyrir nefndinni. Gjaldið skal miðast við kostnað vegna reksturs málsins. Ekki verður heimilt að gera notendum fjarskipta- og póstþjónustu eða Póst- og fjarskiptastofnun að greiða slíkt gjald.

Í nýjum 6. mgr. og 7. mgr. 13. gr. er fjallað um starfshætti og starfsreglur nefndarinnar sem kveðið skal nánar á um í reglugerð. Rétt er að ítreka að nefndin verður áfram sjálfstæð við ákvarðanatöku í málum sem á borð hennar koma.

Að lokum felur bráðabirgðaákvæði í sér að þrátt fyrir að skipan nefndar í samræmi við breytingar á lögum eigi að verða eigi síðar en 1. júlí næstkomandi, skuli sú úrskurðarnefnd sem starfar nú, leysa úr þeim óútkljáðu málum sem hún hefur til meðferðar. Þetta er til þess að breytingar á skipan nefndarinnar hafi sem minnst áhrif á þau mál sem skotið er til hennar á þeim tíma sem breytingarnar eiga sér stað.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.