135. löggjafarþing — 93. fundur,  17. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[23:25]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að ég haldi því fram að umferðin um Sundabrautina sé fyrst og fremst milli Grafarvogs og miðbæjar Reykjavíkur er ég ekki endilega að segja að Reykjavíkurborg eigi að borga það allt. Ég tel auðvitað sanngjarnt að ríkið taki þátt í því eins og það gerir víða, bæði á höfuðborgarsvæðinu og víðar, það tekur þátt í kostnaði við meginstofnæðar í viðkomandi byggðarlögum.

Ef við horfum á þetta eins og það lítur út núna eru fjórar akreinar í norður frá Reykjavík. Með Sundabraut kæmu væntanlega aðrar fjórar. Það yrðu þá átta akreinar norður en hins vegar eru ekki nema fjórar til Suðurnesja og fjórar til Suðurlands. Menn sjá að við yrðum búin að yfirfjárfesta eða fjárfesta miklu meira í umferðaræðum norður en til Suðurlands og Suðurnesja. Það held ég að ætti að verða mönnum áhyggjuefni, a.m.k. hvatning til að hugsa þessa fjárfestingu upp á nýtt.

Það er býsna margt sem menn þurfa að gera hér á höfuðborgarsvæðinu og ekki endilega að hlaupa á eftir öllum kröfum um ný umferðarmannvirki. Ég er alveg sammála hv. þingmanni í þeim efnum. Ég held t.d. að ef umferðin minnkaði um helming, ef einhverjar aðgerðir leiddu til þess, hyrfi öll þörf fyrir ný umferðarmannvirki á þessu svæði þar sem menn eru að glíma við að finna ásættanlegar lausnir. Ég held líka að það sé mjög óskynsamlegt þegar menn sem eru að finna lausnir fyrir það sem er í dag ætla sér á sama tíma að byggja 30 þúsund manna byggð í Vatnsmýrinni sem sprengir þessar lausnir um leið. Það þarf að vera eitthvert samhengi í því sem menn áætla á einum staðnum og þeim umferðarmannvirkjum sem menn telja skynsamlegt að leggja út í fyrir.