135. löggjafarþing — 93. fundur,  18. apr. 2008.

viðauki við fjögurra ára samgönguáætlun 2007--2010.

519. mál
[00:58]
Hlusta

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Mér þykir hæstv. samgönguráðherra fara mikinn. Mér sárnaði samt að hann skyldi tala um sinn foringja í Samfylkingunni en kalla síðan minn ágæta formann eingöngu formann. Þarna er pínulítill áherslumunur í því hvernig menn líta á sína andlegu leiðtoga í stjórnmálum og hann er að þakka (Gripið fram í.) hæstv. utanríkisráðherra og formanni Samfylkingarinnar fyrir að hafa ýtt af stað átaki í samgöngumálum. Ég var ekkert að tala um það, (Gripið fram í.) hæstv. samgönguráðherra. Ég var að reyna að fá þig til að kannast við þau orð sem þú sagðir svo sannarlega í kosningabaráttu fyrir rétt tæpu ári eða um það bil ári, 20. apríl 2007. Það var nú ekki flóknara en það.

Þú ert örugglega stoltur af framkvæmdum við Vaðlaheiðargöng. Ég ætla ekkert að efa að þú sért það. En þetta var með öðrum hætti gert og er með öðrum hætti gert heldur en þú lofaðir að gera og það sem þú sagðist ætla að gera. Og ég skil ekki hvað þér finnst erfitt (Gripið fram í.) við að þurfa þá að kyngja því (Gripið fram í: Hæstv. ráðherra.) (Forseti hringir.) með þeim hætti ... Hæstv. ráðherra. Ég biðst afsökunar á að hafa sleppt virðingarheitunum. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna hæstv. ráðherra Kristján L. Möller finnst þetta svona erfitt og getur ekki gengist við eigin orðum sem hann svo sannarlega sagði við kjósendur í Norðausturkjördæmi og ekki síst á Akureyri. Ég kann enga skýringu á því.