135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[16:35]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Þetta er orðið undarlegt með fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þessu máli um opinbera háskóla og skólagjöld þar. Nú má að vísu segja að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson hafi gefið upp boltann í þessum leik með því að taka upp sérstakan fréttaflutning af hálfu Samfylkingarinnar án þess að hann hafi kannski beinlínis verið um það beðinn. (Gripið fram í.) En það hefur líka verið leiðrétt, forseti, mjög skörulega. Það sá um hv. þm. Katrín Júlíusdóttir með því að lesa úr landsfundarsamþykkt flokksins, sem við tilheyrum, ég og hv. þingmaður, frá árinu 2007. Frá apríl 2007, frá landsfundinum sem haldinn var rétt fyrir kosningar. Skýrara getur þetta ekki orðið.

Það er sérkennilegt að fylgjast með hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni reknum áfram af flokknum sínum til þess að reyna að koma af stað einhverjum vafa um stefnu okkar í þessu efni. Skýringin kann hins vegar að vera sú að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hafi sett það á dagskrá hjá sér að reyna að koma þessum vafa inn í tilburðum sínum í stjórnarandstöðunni.

Ég tók eftir því að daginn eftir að hér var háð umræða um þetta mál var formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs allt í einu búinn að panta við sig viðtal í Mogganum sem gengur mjög greiðlega þegar um þá ágætu háttvirtu persónu er að ræða þar sem hann boðaði sérstakan leiðangur, sérstaka herferð af hálfu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs gegn Samfylkingunni til þess að koma henni með einhverjum hætti á rétta línu í þessu máli.

Forseti. Þetta er algjör óþarfi, Samfylkingin hefur mjög skýra stefnu í þessu. Það hefur líka verið sagt af hálfu okkar, það gerði varaformaður menntamálanefndar, að þegar við erum búin að fara með þetta faðirvor, þá erum við reiðubúin til fordómalausrar umræðu um jafnrétti til náms og um jafnræði skólanna. (Forseti hringir.) Og auðvitað hljótum við að hlusta á hv. formann menntamálanefndar og um leið gefa honum aðkomu í því máli líka.