135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[16:39]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég ætla ekki að ræða efnisatriði hér því að ég er á mælendaskrá og fæ tækifæri til þess síðar. Stefna okkar er skýr hvaða blæbrigði sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs telja sig knúna til að lesa í mál manna í ræðustól. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson hefur talað tvisvar um þetta mál, fyrst í umræðu um störf þingsins og síðar sérstaklega í þessari umræðu hér. Það er enginn vafi á því hvað hann fer með, ég lýsti því áðan. Samþykkt Samfylkingarinnar á landsfundi í apríl 2007, fyrir ári rétt fyrir kosningar, liggur líka fyrir. Hún er alveg ljós.

Hvað gerist í frumvarpinu? Það gerist að þar er ekkert minnst á skólagjöld. Það þarf sérstaka lagagrein til þess að setja skólagjöld á þannig að ef hún er ekki fyrir hendi þá er hún ekki með og það þarf ekki sérstaka lagagrein til að vara við því. Það gera menn í ræðum og í umfjöllun. Svoleiðis er það. Þess vegna er (Forseti hringir.) þetta frumvarp eins og það er, eins og hv. þm. Einar Már Sigurðarson sagði hér í ágætri ræðu.