135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

opinberir háskólar.

546. mál
[17:04]
Hlusta

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Árið 1997 voru samþykkt frá Alþingi lög nr. 136, um háskóla. Þau leystu úr læðingi aukið frelsi, kraft, orku, metnað og nýsköpun í háskólum landsins. Á grundvelli þessara laga var Háskólinn í Reykjavík stofnaður árið 1998. Hið aukna frelsi í háskólum landsins gaf okkur nýja sýn, nýja möguleika og ný tækifæri til framþróunar. Gríðarleg sókn í háskólastarfseminni fylgdi í kjölfarið.

Ég vil minna á að árið 1998 voru einungis 13% starfsmanna á íslenskum vinnumarkaði með háskólapróf, mun lægra hlutfall en var í samanburðarlöndunum. Nú um áratug síðar er hlutfallið um 22%. Aftur til baka til ársins 1998, þá voru háskólanemar á Íslandi rétt ríflega 8 þúsund talsins, þeir eru nú hátt í 18 þúsund eða um 5,6% þjóðarinnar.

Við viljum öll virkja hugvit og nýta þekkingu til að byggja upp Ísland framtíðarinnar. Menntastefna þjóðar er nefnilega samfélagsstefna hennar, atvinnu- og efnahagsstefna, allt í senn. Við skiljum þetta vel og það gera líka þjóðirnar í kringum okkur. Sem dæmi vil ég nefna að í menntastefnu Breta sem var birt árið 2006 kom fram það markmið að 50% hvers árgangs í Bretlandi ætti að ljúka háskólanámi.

Herra forseti. Árið 2006 samþykkti Alþingi ný rammalög nr. 63, um háskóla. Er komin nokkur reynsla á þau lög og mælast þau vel fyrir. Í síðustu viku mælti svo hæstv. menntamálaráðherra fyrir frumvarpi um opinbera háskóla sem er til samræmis við þau ágætu háskólalög frá 2006 sem í gildi eru. Markmið með lögum um opinbera háskóla er m.a. að auka sjálfstæði háskólanna, einfalda lagaumhverfi þeirra og skapa þeim svigrúm til eflingar starfseminnar. Í máli mínu mun ég ræða nokkrar greinar frumvarpsins og tala svo að gefnu tilefni vegna umræðunnar hér um aðstöðumun einkarekinna og opinberra háskóla og svo um skólagjöld. Í stóru myndinni er frumvarpið að mínu mati gott. Það rímar vel við háskólalögin frá 2006 og er til þess fallið að auka styrk og efla opinbera háskóla í landinu.

Í 5. gr. frumvarpsins er hlutverk háskólaráðs skilgreint og skipan þess breytt frá því sem nú er. Ég tel breytingarnar af hinu góða og vil í því samhengi taka dæmi um núverandi háskólaráð Háskólans á Akureyri. Rektor er nú formaður háskólaráðs. Þar eru tveir fulltrúar kennara, einn fulltrúi stúdenta og einn skipaður af menntamálaráðuneytinu. Það sjá væntanlega allir sem rekið hafa starfsemi, stofnun eða fyrirtæki að þetta fyrirkomulag má bæta. Hér er ég ekki að draga í efa hæfni einstakra aðila sem sitja eða hafa setið í háskólaráði Háskólans á Akureyri, en það sjónarmið að fá inn fleiri utanaðkomandi aðila er mjög til bóta. Í stjórn stofnana og þar með háskóla þarf að mínu viti að fá inn aðila sem hafa sem víðtækust tengslanet, þekkingu og reynslu til að miðla af og geta þannig aukið víðsýni og aðstoðað við að efla starfsemi háskóla. Sem fyrrverandi rektor í Háskólanum í Reykjavík vil ég taka fram að það var háskólanum ómetanlegt að hafa fulltrúa úr atvinnulífinu í háskólaráði, fólk með góða og víðtæka menntun með öflugar tengingar við samfélagið og atvinnulífið og með haldgóða rekstrarreynslu sem reyndist Háskólanum í Reykjavík afar vel. Ég tel því að það að fá öfluga utanaðkomandi aðila inn í háskólaráðin sé mjög til bóta. Mér finnst þó einkennilegt að í nýju frumvarpi skuli háskólarektor enn ætlað að vera formaður háskólaráðs og þjóna þannig sem eins konar yfirmaður sinn og undirmaður hvort tveggja í senn eftir því hvaða hatt hann ber, þ.e. sá sem er yfirmaður rektors eða eins konar yfirmaður, þ.e. formaður háskólaráðs, og sá sem sinnir daglegum rekstri sem er rektorinn.

Í 8. gr. kemur t.d. fram að menntamálaráðherra skipi háskólarektor til fimm ára samkvæmt tilnefningu háskólaráðs en þar er einmitt rektor formaður. Þetta finnst mér að skoða þurfi sérstaklega.

Í 11. gr. frumvarpsins kemur fram að skólar séu meginskipulagseiningar í háskólum. Þarna verða til öflugar einingar í stjórnskipulagi háskóla sem stýrt er af forsetum. Forseti hefur frumkvæði að mótun stefnu fyrir skólann, hann er akademískur leiðtogi, ber ábyrgð á fjármálum og rekstri ásamt þeim stofnunum sem undir skólann heyra og velur deildarforseta til tveggja ára í senn samkvæmt tilnefningu deildarfunda. Skólaráðið er myndað af forseta og deildarformönnum ásamt einum eða fleiri nemendum. Þar eru mikilvægar ákvarðanir deilda teknar, m.a. um námsframboð. Þarna er kjörinn vettvangur fyrir svokallað nemendalýðræði og ég held að það skipti miklu máli að þarna séu nemendur við borðið að fjalla um þessi mál. Ég tel að fyrirkomulagið geti styrkt opinbera háskóla og það sé af hinu góða.

Í 24. gr. er fjallað um fjárhagsmálefni háskóla. Þar er ekki grundvallarbreyting á gjaldtökuheimild háskóla en þó gert ráð fyrir að einstakir háskólar geri tillögu til ráðherra um fjárhæð skrásetningargjalda eins og þar stendur.

Skólagjaldaumræðan er viðkvæm og hún fer um víðan völl. Mikillar ónákvæmni hefur gætt í umræðunni. Þingmenn hafa kallað á fordómalausa umræðu um fjármögnun háskóla en margir hverjir brennt sig á því að stilla skólagjöldum upp sem helsta mun á fjármögnun einkarekinna og ríkisrekinna háskóla, úrslitaatriði sem þurfi að taka á til að gæta jafnræðis, eins og það er kallað, og þess að skólar sitji við sama borð hvort sem um er að ræða einkarekna eða ríkisrekna háskóla. Þessi málflutningur er mikil einföldun og hann er beinlínis rangur.

Virðulegi forseti. Ég minni á að skólagjöldin eru aðeins einn af fjölmörgum tekjuþáttum háskólanna. Í Háskólanum í Reykjavík sem dæmi, fyrir samruna Háskólans í Reykjavík og Tækniháskóla Íslands sem gekk í gildi 1. júlí 2005, komu einungis 45% tekna Háskólans í Reykjavík frá ríkinu. Aðrir tekjupóstar voru rannsóknarfjármunir sem komu úr samkeppnissjóðum, Evrópusjóðum og með ýmsum öðrum hætti, m.a. frá atvinnulífinu. Það var stjórnendaskóli Háskólans í Reykjavík, MBA-námið, ýmsir styrkir bæði frá fyrirtækjum og einkaaðilum, ýmis þjónusta og svo skólagjöldin sem voru yfirleitt um 17% af tekjum skólans.

Förum aðeins yfir staðreyndir málsins um jafnræði og að skólar sitji við sama borð í fjármögnun. Samkvæmt fjárlögum eru beinar fjárveitingar til Háskóla Íslands um 7,1 milljarður kr. en til Háskólans í Reykjavík tæplega 1,9 milljarðar. Nemendafjöldi þessara skóla samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofunnar er 9.586 í HÍ og 2.907 í HR. Þarna munar 15% á fjárveitingu HÍ í vil en þetta segir alls ekki alla söguna. Rannsóknir eru sívaxandi þáttur í starfsemi allra háskólanna. Þar ríkir ekki jafnræði í framlögum. Eins og þingheimur veit var verulegu rannsóknarfjármagni úthlutað til Háskóla Íslands fyrir ríflega ári síðan. Einnig er beintenging milli Háskóla Íslands og opinberra vísindastofnana sem fá hundruð milljóna samkvæmt fjárlögum ársins 2008. HÍ nýtur Happdrættis Háskóla Íslands en áætlaður hagnaður árið 2008 er tæpur milljarður. Húsnæðismál HÍ eru að mestu leyti fjármögnuð af Happdrætti Háskóla Íslands en ég vil benda á að HR greiðir um 300 milljónir í húsaleigu á hverju ári og sá kostnaður mun verða enn meiri þegar farið verður í nýbygginguna í Vatnsmýrinni. Þá nefni ég að árlega rennur fjárhæð til Háskóla Íslands frá fólki utan trúfélaga. Á þessu ári er sú upphæð 200 millj. kr. Einkareknir háskólar greiða virðisaukaskatt en opinberir háskólar ekki. Talandi um fordómalausa umræðu og að skólar sitji við sama borð þarf að taka alla þessa þætti inn í samanburðinn á fjármögnun einkarekinna og ríkisrekinna háskóla.

Eftir sem áður er ég stolt af HÍ, ég er afar stolt af HÍ eins og allir landsmenn og vil sjá veg hans sem mestan. Við eigum að efla Háskóla Íslands og styrkja sem og aðra opinbera háskóla. Fram undan er mikilvægur samruni Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands þann 1. júlí nk. og merkilegt uppbyggingarstarf er þar fram undan sem ég vona innilega að verði til farsældar fyrir okkur öll. Við eigum sömuleiðis að efla aðra opinbera sem og einkarekna háskóla. Háskólinn í Reykjavík ætlar sér forustuhlutverk á alþjóðavettvangi og ég efast um að þingmenn viti almennt hversu öflugt starfið þar er, ekki síst á sviði rannsókna, samanber það álit hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur sl. fimmtudag sem taldi að vegna þess hve ungur Háskólinn í Reykjavík er þyrfti e.t.v. ekki að styðja svo mikið við rannsóknarstarfið. Ég efa ekki að undir forustu núverandi rektors Háskólans í Reykjavík eigi skólinn eftir að eflast mjög hratt og verða einn af þeim skólum sem þekktir eru og viðurkenndir alþjóðlega fyrir nýsköpun, öfluga kennslu, alþjóðlegt samstarf og síðast en ekki síst öflugar og þverfaglegar rannsóknir.

Aftur að skólagjöldunum. Ég minni á að tekjutap einstaklings í háskólanámi er í raun dýrasti þáttur námsins. Tekjutapið má áætla í flestum tilvikum á bilinu 2–5 milljónir á ári og það fer vissulega eftir árstekjum viðkomandi nemanda. Því skiptir miklu að stúdentar klári námið á tilsettum tíma. Í úttekt Ríkisendurskoðunar frá júní 2007 á viðskiptafræði-, lögfræði- og tölvunarfæðinámi kom fram að miklu munar á útskriftarhlutfalli og brottfalli nemenda í einkareknum og ríkisreknum háskólum og þar koma einkareknu háskólarnir verulega betur út úr samanburðinum. Það munar miklu t.d. á Háskólanum í Reykjavík og Háskóla Íslands hversu hátt hlutfall nemenda í grunnháskólanámi lýkur námi á tilskildum tíma en eins og vitað er er áætlað að grunnháskólanám taki þrjú ár og að því ljúki með fyrstu háskólagráðu. Ríkisendurskoðun birti t.d. þær niðurstöður að nemendur sem hófu nám í viðskiptafræði 1999 og höfðu ekki lokið því að þremur árum liðnum — ég vek athygli á því, þeir sem höfðu ekki lokið því — voru 28% af HR-ingunum en 85% af þeim sem skráðust 1999 í HÍ, þ.e. aðeins 15% af þeim höfðu klárað nám á þessum þremur árum. Þegar skoðað var hversu margir af þeim sem hófu nám 1999 höfðu ekki klárað prófið eftir fimm ár kom í ljós að 18% HR-inga höfðu ekki klárað námið en 66% HÍ-nema höfðu ekki klárað á þessum fimm árum. Sem sagt 82% HR-inga kláruðu námið á innan við fimm árum og 34% HÍ-nema.

Annað sem skiptir afar miklu máli er brottfall nemenda. Ríkisendurskoðun birti upplýsingar sérstaklega fyrir viðskiptafræði, lögfræði og tölvunarfræði í HR og HÍ og er um að ræða meðaltal áranna 2003–2005. Í viðskiptafræði var brottfallið eftir eitt ár 30% í HR, 57% í HÍ, næstum tvöfalt brottfall. Í tölvunarfræði var brottfallið 38% í HR, 48% í HÍ. Í lögfræði var brottfallið eftir eitt ár 24% í HR og 43% í HÍ. Í HR þar sem nemendur greiða skólagjöld, 128 þúsund á önn, er brottfall mun lægra en í HÍ og útskriftarprósentan t.d. eins og ég nefndi áðan í viðskiptafræði sláandi hærri, eða 72% af þeim sem innrituðust 1999 kláruðu á þremur árum, eins og við viljum að nemendur okkar geri, en eins og ég benti á áðan einungis 15% af þeim sem hófu nám í viðskiptadeild í HÍ.

Þetta er vissulega vert að skoða nánar og jafnframt þarf að velta fyrir sér hvort skuldbinding nemenda sem greiða skólagjöld geti að einhverjum hluta skýrt þennan mikla mun og ég undirstrika mikla mun. Í því samhengi þarf einnig að hafa í huga þann kostnað hvers námsárs sem mældur er í tekjutapi stúdenta og er langkostnaðarsamasti þáttur námsins. Ég hvet þingmenn til að taka vitræna og fordómalausa umræðu um skólagjöldin.

Virðulegi forseti. Góðu fréttirnar eru þær að við höfum verið í bullandi sókn í háskólastarfi hér á landi og ég efast um að leitun sé að öðru eins. Ég óska hæstv. menntamálaráðherra til hamingju með þær framfarir sem hafa orðið og ég veit líka að í framtíðinni verður lögð enn meiri áherslu á rannsóknarþáttinn, það á að auka rannsóknarfjármuni um 85% sé miðað við árið 2007 og fram til ársins 2010. Geri aðrir betur. Stöndum vörð um háskólana okkar. Styrkur þeirra veit á gott fyrir okkur öll, fyrir nemendur, fyrir framtíðina, fyrir okkur öll. (Forseti hringir.) Um leið og þetta er verðmætasta fjárfesting samfélagsins er þetta líka verðmætasta fjárfesting einstaklinganna.