135. löggjafarþing — 94. fundur,  21. apr. 2008.

Landeyjahöfn.

520. mál
[21:23]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka þeim þingmönnum sem um þetta mál hafa talað hér fyrir innlegg þeirra í þessa umræðu. Ég gat ekki heyrt annað en að það væri mikil sátt um það sem hér hefur komið fram fyrir utan kannski einn þingmann sem hefur lýst efasemdum sínum.

Ég tók eftir því að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson, fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í samgöngunefnd og talsmaður þeirra í samgöngumálum, kallaði þetta ekki slæman kost og talaði alls ekki gegn þessu. Hann talaði um skoðanaskipti og velti upp nokkrum sjónarmiðum. Hann nefndi það m.a. að hann hefði verið á fundum þar sem fulltrúar Siglingastofnunar hefðu útskýrt þetta mál og talið þessa leið mjög tæknilega færa. Og auðvitað er það svoleiðis. Hv. þingmaður talaði eins og ég segi hér vel um þetta þó að hann hafi haft einhverja fyrirvara um að ræða þetta frekar í samgöngunefnd eins og gengur og gerist.

Hv. þm. Grétar Mar Jónsson hefur hins vegar verið frekar efins um þetta og er með alls konar fyrirvara í máli sínu og við því er ekkert að gera. Það verður þó að segjast alveg eins og er að hv. þingmaður talaði svona í austur og vestur, hann talaði í eitt skiptið um að þetta væri of hættuleg höfn en á hinn bóginn spáir hann því að drekkhlaðin fiskiskip komi í höfnina til að landa og svo komi skip sem eru að flytja út svokallaðan gámafisk og taki fiskinn þar. Það virðist þá töluverður munur á ölduhæð ef svo má að orði komast hvað þennan málflutning varðar. Ef ferjan á að komast þarna inn eins og hún mun auðvitað gera — þetta sýnir í raun og veru að þetta er ekki alveg sannfærandi málflutningur sem kom fram.

Ég ætla ekki að fara út í umræðuna hér um jarðgöng sem hv. þingmaður talaði um en hann fór með tölur sem eru ekki alveg réttar. Í sumar þegar skýrsla lá fyrir frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens um Vestmannaeyjar og jarðgöng tók ríkisstjórnin í framhaldi af henni þá ákvörðun að leggja þetta til hliðar og snúa sér að þeim valkosti sem við erum að ræða núna sem ég segi að um hafi alltaf verið, þrátt fyrir þær undirskriftir sem hafa komið, allmikil sátt meðal Eyjamanna. Ég vitna þar til fulltrúa þeirra sem er bæjarstjórn Vestmannaeyja sem ályktaði strax og skýrsla stýrihópsins kom fram um þetta. Eftir því hefur verið unnið.

Hv. þm. Bjarni Harðarson talaði líka, vil ég segja, mjög vel um þetta verkefni, óskaði okkur til hamingju með að þetta væri komið fram og óskaði þess að verkið gengi vel og hnökralaust fyrir sig. Hann treysti þeim færustu sérfræðingum sem hafa unnið þetta mál fyrir okkur. Þessir sérfræðingar sem margir hverjir eru með þeim fremstu í heimi hafa jafnframt farið út fyrir landsteinana og hefur verið leitað eftir skoðun á verkum þeirra sem hafa fengið heldur betur fína stimpla, sama hvort við erum að tala um danska verkfræðistofu eða Det norske veritas.

Aðeins um það sem hv. þingmaður nefndi um að hv. fyrrverandi þm. Hjálmar Árnason hefði lagt til að farið yrði í að kaupa hraðskreitt skip sem sigldi til Þorlákshafnar. Það er alveg rétt, ég man það líka. Hv. fyrrverandi þm. Hjálmar Árnason var ásamt hv. fyrrverandi þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni, báðum þingmönnum Framsóknarflokksins þá, flutningsmaður að þingsályktunartillögu sem Árni Johnsen og fleiri, þar á meðal sá sem hér talar, eru flutningsmenn að, þ.e. um að láta kanna Bakkafjöruhöfn. Það hefur leitt til þessarar niðurstöðu.

Ég tek undir með fyrrverandi hæstv. samgönguráðherra Sturlu Böðvarssyni að auðvitað er það þannig að Framsóknarflokkurinn, bæði sem fyrrverandi ríkisstjórnarflokkur og svo með tilliti til þessarar tillögu sem ég hef lagt fram, hefur stutt þetta mál vel og dyggilega. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Bjarna Harðarsyni fyrir það sem hann hefur sagt hér um þetta verkefni.

Það er auðvitað það sem við eigum að sameinast um núna. Það er búið að rannsaka og kanna nóg. Nú er bara komið að þeim tímapunkti eins og hv. þm. Bjarni Harðarson nefndi hér áðan að við þolum ekki lengri bið. Við þurfum ekki frekari skoðanir en eigum að einhenda okkur í það verkefni sem við erum hér að gera og eigum öll að sameinast um það. Ég vona svo að þetta takist allt saman vel og er ekki í nokkrum vafa um að svo verði. Miðað við þær skýrslur og þau gögn sem maður hefur lesið um þetta leyfi ég mér að efast um að nokkur hafnarframkvæmd hafi verið undirbúin jafn vel og dyggilega og hér hefur verið gert þar sem okkar færustu sérfræðingar sem, eins og ég áður sagði, eru margir hverjir á heimsklassa, hafa svo leitað út fyrir landsteinana til að láta skoða verk sitt og fara yfir það og það hefur fengið stimplun hjá þeim stofnunum sem ég nefndi hér áðan. Það er auðvitað ánægjulegt til þess að vita.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan og tek undir með hæstv. fyrrverandi samgönguráðherra og núverandi forseta Alþingis að við eigum að meta vel vinnu þeirra sem unnu í stýrihópnum og settu hana þar fram. Í raun og veru set ég það fram bara eins og hér hefur verið sagt að vonandi gengur framkvæmdin vel og hnökralaust fyrir sig.

Ef ég man rétt á að opna tilboð 5. júní næstkomandi í veginn, í hafnargerðina. Þetta er allt saman vel tímasett og sett fram og vonandi fáum við góð tilboð í þá framkvæmd.

Svo gerist það núna á þeim erfiðleikatímum sem ganga yfir heimsbyggðina, bæði með háu olíuverði og öðru slíku og plús það sem leggst á okkur Íslendinga út af gengisfalli krónunnar, að við sjáum hér hærri tilboð en við höfum reiknað með hingað til og kostnaðaráætlanir hafa að sjálfsögðu hækkað. Það sjáum við í öllum verkum sem við erum að opna tilboð í núna.

Ég vil svo bara, virðulegi forseti, hér í lokin segja það vegna þeirra undirskrifta sem mér voru afhentar fyrir nokkrum dögum að þær eru einfaldlega of seint fram komnar. Málið er komið það langt í undirbúningi og vinnslu að ekki verður hætt við það hér og nú.

Ég tók sem samgönguráðherra við samgönguáætluninni eins og hér var getið um. Bakkafjöruhöfn var samþykkt í þeirri samgönguáætlun 17. mars árið 2007 og líka hefur þetta verið unnið í nánu samstarfi við bæjarstjórn Vestmannaeyja sem er öll hlynnt þessari framkvæmd.

Þrátt fyrir þann fjölda sem skrifaði undir þar hef ég auðvitað líka fengið áskoranir um að við höldum ótrauð áfram við það verkefni sem við erum hér að tala um. Þó að einhver andstaða sé við það meðal þeirra sem skrifuðu þarna undir skulum við ekki gleyma því að þar eru líka stuðningsmenn.

Það er kannski ekkert óeðlilegt við það, virðulegi forseti, að fólk skiptist á skoðunum um samgöngumál. Það eru sennilega oft upp undir 310.000 sérfræðingar í samgöngumálum á Íslandi í dag og það á vafalaust við um þetta verk eins og ýmis önnur.

Virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að Landeyjahöfn verði vönduð framkvæmd og veit að það er mikill stuðningur við málið hér á Alþingi. Ég legg áherslu á að ég held að við eigum að einhenda okkur í að vinna þetta verk vel og ég vona auðvitað að vel takist til. Ég er alveg viss um að þegar upp verður staðið vildu allir þessa Lilju kveðið hafa.